Á sumrin fjölgar í hópi félagsmanna Eflingar þegar ungt fólk ræður sig til sumarstarfa. Um mjög fjölbreytt störf er að ræða sem endurspeglar samsetningu félagsmanna Eflingar í heild sinni, svo sem störf í garðyrkju, iðnaði, fiskvinnslu, umönnun, ræstingum, mötuneyti, veitingastörf og ýmis störf tengd ferðaþjónustu. Efling hefur lengi fylgst með því að réttindi séu virt og sérstaklega hugað að því að rétt sé staðið að ráðningarsamningum. Félagið fylgir síðan málum eftir ef brotalamir verða á vinnustöðum. Það sem af er þessu ári hefur félagið merkt verulega aukningu í málum sem snúa að störfum í veitinga- og ferðaþjónustu.Afar mismunandi er hvernig staðið er að ráðningu ungs fólks og er í því sambandi vert að vekja athygli á niðurstöðum nýrrar Gallup könnunar sem unnin var á vegum ASÍ og SA, þar sem fram kemur að um 85% alls launafólks á Íslandi sé með skriflegan ráðningarsamning en einungis 14% í aldurshópi 18 til 24 ára. Nánar má lesa um könnunina og fyrirkomulag ráðningasamninga á heimasíðu ASÍ.Mikil fjölgun innheimtumála í veitinga- og ferðaþjónustugeiraÁ hverjum degi leita félagsmenn til Eflingar til þess að fá upplýsingar um réttindi sín og fjölmörgum erindum þarf að fylgja frekar eftir en milli 400 og 500 mál eru skráð árlega hjá Eflingu sem slík. Það sem af er þessu ári hefur félagið merkt verulega aukningu í málum sem snúa að störfum í veitinga- og ferðaþjónustu. Félagsmönnum Eflingar hefur fjölgað í þessum atvinnugeira og telja þeir nú um fjórðung félagsmanna eða rétt innan við 6.000 félagsmenn.Fjöldi innheimtumála eru hins vegar hlutfallslega mun meiri í veitinga- og ferðaþjónustunni en í öðrum atvinnugreinum og það sem af er þessu ári hefur yfir helmingur mála komið þaðan. Helstu brotin snúa að því að verið er að greiða laun undir kjarasamningsbundnu lágmarki og í fæstum tilvikum hefur verið gengið frá ráðningasamningi við viðkomandi.Það er rétt að hafa í huga að hlutfall ungs fólks er mjög hátt í veitinga- og ferðaþjónustunni en um fjórðungur af félagsmönnum Eflingar í þeim geira er undir tvítugt á meðan hlutfallið fyrir þennan aldurshóp er um 11% fyrir félagið í heild.Full ástæða er því til að hvetja ungt fólk í veitinga- og ferðaþjónustunni til að huga vel að því hvort að það sé að fá rétt laun fyrir sína vinnu.