Kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins var undirritaður þann 24. júní sl. Kjarasamningurinn er framlenging af núgildandi samningi frá 2009 með þeim breytingum að kauptrygging hækkar frá 1. júní um 23% og verður 288.000. Í samningslok 31. desember 2018 verður kauptryggingin 310.000 kr. Aðrir kaupliðir hækka um 17,1% á samningstímanum og er til samræmis við þær hækkanir sem samið var um á almennum vinnumarkaði frá 2011.
Vilji er hjá fjármálaráðherra að hluti fæðispeninga sjómanna verði skattfrjálsir þar sem tekjuáhrifin eru um hálfur milljarður króna. Frumvarp þess efnis er komið fram og er nánari útfærsla í vinnslu.
Bókun fylgir samningnum um athugun á mönnun fiskiskipa og hvíldartíma íslenskra sjómanna sem Jón Bernódusson hjá Samgöngustofu mun hafa forgöngu um. Einnig er bókun um endurritun samningsins alls fyrir lok samningstímans. Ríkissáttasemjari mun stýra þeirri vinnu ef samningurinn verður samþykktur. Þar er búið að skilgreina hvað á að ræða um og tímasetja lok vinnunnar við hvern lið.
Atkvæðaseðlar ásamt kynningarefni um nýjan kjarasamning sjómanna verða sendir til félagsmanna á næstunni en atkvæðagreiðslan mun standa til miðnættis 8. ágúst og niðurstöður munu liggja fyrir 10. ágúst næstkomandi.
Þeir félagsmenn sem telja sig eiga atkvæðisrétt um þennan samning en fá ekki send kjörgögn eru hvattir til að hafa samband við félagið og óska eftir nánari upplýsingum.