Breytingar á atvinnuumhverfi

18. 08, 2016

atvinnuumhverfi_Harpa_olafsStöðug fjölgun félagsmanna, en ennþá stór hópur án atvinnu

Frá árinu 2010 hefur félagsmönnum Eflingar fjölgað stöðugt á ári hverju og eru þeir nú ríflega 24.000 og hafa aldrei verið fleiri.  Það er talsverður viðsnúningur frá 2009 þegar þeim fækkaði tímabundið úr 20.000 í 18.000 í kjölfar efnahagshrunsins.  Athyglisvert er hins vegar að fylgjast með þeim breytingum sem orðið hafa á samsetningu félagsmannahópsins. Þar vekur sérstaka athygli að fjölgun félagsmanna virðist skila sér í ferðaþjónustu en fjöldi starfsmanna sem bæst hefur við í byggingariðnaði er langt undir því sem ætla má að sé starfandi ef miðað er við sýnilega þenslu í greininni. Þetta segir Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur Eflingar sem rýnt hefur í breytingar á fjölda starfsmanna í atvinnugreinum síðustu árin.

Ferðaþjónustan með fjölmennasta hópinn
Sú mikla aukning sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustunni hefur vart farið fram hjá mörgum hér á landi.  Hjá Eflingu mátti fyrst greina aukinn viðsnúning í veitingaþjónustu en störfum hefur einnig fjölgað verulega í gistiþjónustu, rútuflutningum, í  bílaleigu og ýmiss konar þjónustu tengdri ferðamönnum, svo sem í smásölu og matvælavinnslu.  Yfir átta þúsund félagsmenn starfa nú við ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti.

Aukinn fjölbreytileiki af erlendu vinnuafli
Sá uppgangur sem verið hefur í atvinnulífinu hefur kallað á aukið vinnuafl erlendis frá.  Félagsmenn Eflingar koma frá yfir 120 þjóðlöndum og í maí síðastliðinn var hlutfall erlends vinnuafls 38% en stöðug aukning hefur verið í fjölgun félagsmanna af erlendum uppruna undanfarin misseri.  Athygli vekur að samsetning hópsins hefur breyst.  Pólverjar eru ennþá lang fjölmennastir eða um 3800 manns en við erum einnig að sjá fjölgun frá öðrum löndum svo sem Litháen, Lettlandi, Spáni og Rúmeníu.

Ennþá hópur félagsmanna án atvinnu
Það er vissulega áhyggjuefni að atvinnuleitendur er ennþá stór hópur hjá félaginu eða um 800 manns, þar af eru þrír af hverjum fjórum á aldrinum 20 ára til 45 ára og 56% eru af erlendum uppruna.

Hvar er vinnuaflið í nýbyggingum og viðhaldi?
Félagsmenn í byggingariðnaði voru um 3.300 árið 2008 og hefði mátt vænta að svipaður fjöldi væri starfandi þar nú í hlutfalli við auknar byggingaframkvæmdir en í maí síðastliðnum voru einungis um 1.600 félagsmenn starfandi í þessari atvinnugrein. Efling hefur um nokkurt skeið tekið þátt í vinnustaðaeftirliti og er ljóst að full þörf er á að halda því áfram, ekki hvað síst í byggingageiranum þar sem oftsinnis hefur komið í ljós að ekki er verið að greiða af starfsmönnum til stéttarfélaga.