Sjómenn fara í verkfall

10. 11, 2016
Í kvöld, 10. nóvember, slitnaði uppúr viðræðum sjómanna og útvegsmanna um nýjan kjarasamning. Verkfall undirmanna á fiskiskipum skellur því á kl. 23:00. Í tilkynningu frá Sjómannasambandi Íslands segir að ástæða þess að upp úr slitnaði er fyrst og fremst deila um mönnun uppsjávarskipa og ísfisktogara. Sjómenn telja að alltof langt sé gengið í fækkun sjómanna í þessum skipaflokkum. Tillögur að lausn komu fram en ekki náðist niðurstaða í þessum málum.
Verkfallið nær til 3.500 sjómanna og verður þetta fyrsta verkfall sjómanna hér á landi í fimmtán ár en sjómenn hafa verið samningslausir allt frá því í ársbyrjun 2011 þegar samningar losnuðu.