Select Page

-segir Kristján Bragason

Krafan um aukið starfsöryggi sett á oddinn og áhersla á sérstaka hækkun lægstu launa

Í lok nóvember á síðasta ári kynnti miðstjórn Sænska Alþýðusambandsins LO, sameiginlegar launakröfur fyrir öll aðildarsamböndin og kröfu um aukið starfsöryggi. Launakrafan er upp á 2,8%, en þá þannig að enginn fær minna en 672 sænskar krónur í launahækkun á mánuði sem eru á núverandi gengi 8.750 íslenskar krónur.

Samkvæmt yfirlýsingu frá sambandinu er markmiðið með þessari samræmdu kröfugerð að tryggja launastefnu sem byggir á samstöðu í stað sérhagsmuna og hækka laun þeirra sem lægstu laun hafa meira en annarra og minnka kynbundið launabil. Sérstök hækkun launa mun leggjast á öll laun sem eru undir 24.000 sænskum krónum á mánuði sem eru um 300.000 íslenskar kr. og mun einkum koma þeim sem sinna umönnunar- og þjónustustörfum vel, sem almennt eru hefðbundin kvennastörf.

Starfsöryggi hefur minnkað síðustu árin

Á seinustu tuttugu árum hefur átt sér mikil breyting á evrópskum vinnumarkaði. Dregið hefur úr starfsöryggi almenns launafólks með aukinni hnattvæðingu, stærri þjónustugeira, einkavæðingu í opinbera geiranum, úthýsingu verkefna, starfsmannaleigum, vaxandi atvinnuleysi og breyttri hegðun neytenda. Krafa fyrirtækja um meiri sveigjanleika hefur þýtt fleiri hlutastörf, aukningu í tímabundnum ráðningum, sem og nýrra ráðningarforma. Afleiðingar þessarar þróunar hefur verið sú að kjarasamningar fá minna vægi sem skilar sér í verri réttindum launafólks og lægri launum.

Verkalýðshreyfingin hefur ekki verið nægjanlega vakandi gagnvart þessari þróun og þannig hafa launahækkanir, betri réttindi í kjarasamningum og aukinn kaupmáttur launa nær eingöngu skilað sér í betri starfskjörum hjá útvöldum hópum launafólks með kjarasamninga og gott starfsöryggi. Í ljósi þessa vill sænska verkalýðshreyfingin nú gera samstillt átak í samstarfi við atvinnurekendur og stjórnvöld með það að markmiði að styrkja meginstoðir sænska vinnumarkaðslíkansins og bæta starfsöryggi og auðvelda launafólki að takast á við þær áskoranir sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir í framtíðinni.

Verkafólk hefur misst trú á hefðbundnum stjórnmálum vegna aukins ójöfnuðar

Um miðjan nóvember birti Eurofound nýja könnun sem gerð var á starfskjörum og aðbúnaðarmálum á meðal launafólks í 35 Evrópulöndum árið 2015. Helstu niðurstöður benda til að staða launafólks hafi batnað á seinustu árum, en engu að síður sé viðvarandi mikill kerfisbundinn ójöfnuður í starfskjörum og aðbúnaði út frá kyni, starfi og tegund ráðningarsambands.

Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC hefur gert úttekt á könnuninni og þar kemur meðal annars fram að 1/3 hluti launafólks í Evrópu eigi erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman. Þá sé margt sem bendi til þess að sá ábati sem launafólk hafi fengið á síðustu árum í formi launahækkana sé mjög ójafnt skipt á milli starfsgreina og þá hafa ytri þættir á borð við hækkandi húsnæðiskostnað og niðurskurð í opinberum útgjöldum komið mjög illa við ráðstöfunartekjur launafólks.

Luka Visentini, framkvæmdastjóri Evrópusambands verkalýðsfélaga bendir á að þessar niðurstöður séu ógnvekjandi. Það sé ljóst að launavinna tryggi ekki lengur mannsæmandi lífskjör og því sé það ekki skrýtið að verkafólk treysti ekki lengur á Evrópusambandið og hefðbundin stjórnmálaöfl. Evrópska verkalýðshreyfingin vill sjá auknar fjárfestingar hjá hinu opinbera á næstu árum og þá þurfi að styðja við kröfuna um sérstakar launahækkanir fyrir þá lægst launuðu og bætt starfsöryggi, sem sé meginforsenda þess að hægt sé að minnka fátækt í Evrópu og tryggja betri efnahag fyrir alla þegna Evrópusambandsins.

Höfundur er framkvæmdastjóri Norrænna Samtaka starfsfólks í hótel, veitinga- og ferðaþjónustugreinum

Dregið hefur mikið úr starfsöryggi almenns launafólks með aukinni hnattvæðingu, stærri þjónustugeira, einkavæðingu í opinbera geiranum, úthýsingu verkefna, starfsmannaleigum, vaxandi atvinnuleysi og breyttri hegðun neytenda.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere