– Átelur sleifarlag útgerðarmanna í samningunum
Efling-stéttarfélag lýsir þungum áhyggjum af verkfalli sjómanna og þeirri stöðu sem samtök útgerðarmanna bera alla ábyrgð á eins og nú er komið málum. Það er vítavert hvernig sjómönnum, sem standa undir einum helsta atvinnuvegi þjóðarinnar hefur árum saman verið neitað um kjarasamning nema gangast undir afarkosti útgerðarmanna um þátttöku í kostnaði við atvinnurekstur útgerðarinnar sem þeir einum stétta er gert að bera með atvinnurekendum.
Nú þegar verkfalla sjómanna hefur staðið vikum saman, átelur Efling-stéttarfélag það sleifarlag sem einkennt hefur öll vinnubrögð útgerðarmanna í samningunum. Fleiri stéttir svo sem fiskverkafólk og annað launafólk sem hafa atvinnu af ýmsum þjónustugreinum sjávarútvegsins eru ásamt sjómönnum að verða fyrir miklu tjóni vegna þessara vinnubragða.
Annars vegar halda útgerðarmenn því fram að hætta sé á að fiskmarkaðir erlendis geti verið í hættu að tapast og hins vegar sé útgerðin að verða fyrir tjóni sem nemur um hálfum milljarði á dag. En mjög fátt í vinnubrögðum útgerðarmanna í samningunum bendir til að þeir vilji rétta fram þá sáttahönd sem nauðsynleg er til að ná kjarasamningi fyrir þennan mikilvæga hóp sjómanna.
Efling-stéttarfélag hvetur útgerðarmenn til að snúa við blaðinu og mæta réttmætum kröfum sjómanna með alvöru samningaviðræðum og lausnum í kjaradeilunni sem eru líklegar til að skila árangri.