Margir félagsmenn og aðrir þeir sem þurfa að leita eftir þjónustu í Sætúni 1 hafa lent í erfiðleikum með að finna bílastæði við húsið. Alþýðusambandið, Gildi lífeyrissjóður, VIRK starfsendurhæfing og Efling-stéttarfélag sem öll hafa aðsetur í húsinu, eru að þjónusta mikinn fjölda félagsmanna og mjög oft eru bílastæðin yfirfull. Leitað var eftir því fyrir nokkrum árum að fá heimilaða stækkun á bílakjallara hússins og reyndi á þetta erindi með ósk um breytingu á deiliskipulagi um mitt ár 2015. Borgin hafnaði erindinu með þeim rökstuðningi að ekki væri vilji til að fjölga bílastæðum í hverfinu. Um haustið 2015 kærði Húsfélagið Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til að fá ákvörðun um synjun fjölgunar bílastæða hnekkt. Á þetta reyndi ekki þar sem borgin féllst á kröfur um nýtt deiliskipulag nú í vor sem þýðir að eigendum Sætúns 1 er heimilað að byggja við eldri bílakjallara þannig að bílastæðum fjölgar frá því sem nú er.Heimild er fyrir 140 bílastæðum samkvæmt eldra skipulagi sem skiptast á efra bílaplan og bílastæðahús. Með nýrri samþykkt borgarinnar fjölgar bílastæðum um 27 í bílakjallara og verða þá 167 stæði við húsið.Eigendur hafa ekki tekið ákvörðun um framkvæmdir en vilji er fyrir því í húsinu að fjölga bílastæðum þar sem mikill skortur er á stæðum við húsið. Það tekur um ár frá því að ákvörðun er tekin um stækkun þar til ný bílastæði verða komin í notkun.