Frétt frá Eflingu-stéttarfélagi – Falsfréttir og upphlaup draga úr trausti

Fréttatilkynning til fjölmiðlaVegna ýmissa fullyrðinga sem komu fram á vefmiðlinum Visir.is í gær, þann 20. febrúar, þar sem m.a. er rætt við Gísla Tryggvason, lögmann B-lista framboðs til stjórnar Eflingar, vill félagið koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:Erindi Gísla Tryggvasonar barst skrifstofu Eflingar kl. 11.00 að morgni þessa sama dags. Það var stílað á stjórn Eflingar. Formaður félagsins brást þegar við með því að boða stjórnarfund nk. föstudag. Þar verður erindið tekið fyrir og því svarað.Stjórnarmenn í Eflingu eru vinnandi fólk á ýmsum vinnustöðum og stjórnarfundi verður að boða með ákveðnum fyrirvara. Lögmaður B-lista, Gísli Tryggvason, hringdi í Eflingu sex dögum fyrr, þar sem honum var bent á að senda inn formlegt bréf til stjórnar félagsins. Það barst loks í gærmorgun eins og áður segir.Það vekur furðu að lögmaðurinn skuli kvarta undan því að fá ekki afgreiðslu erindis nokkrum klukkustundum eftir að það er sent. Erindi sent stjórn verður ekki afgreitt af öðrum en stjórn.Félagið hafnar algerlega þeirri fullyrðingu að framboðum til stjórnar sé mismunað með einhverjum hætti. Það er ekkert í kynningu framboðanna, hvorki á heimasíðu Eflingar né í kynningarefni Fréttablaðs Eflingar eða í sérstöku sameiginlegu kynningarefni framboðanna sem styður þá fullyrðingu, enda allt unnið í fullu samráði við bæði framboðin, án efnislegrar aðkomu og afskipta stjórnar og skrifstofu félagsins. Allur texti er byggður á staðreyndum.  Fenginn var sérstakur starfsmaður til að vinna að sameiginlegu kynningarefni og nákvæmlega samskonar samráð haft við bæði framboðin í því sambandi. Jafnframt skal bent á að stjórn Eflingar ákvað að veita hvoru framboði um sig styrk upp á 700.000 kr. til að standa straum af kostnaði við framboðin.Þær fullyrðingar sem koma fram í máli lögmannsins um að framboðunum sé mismunað varðandi umfjöllun og kynningarefni eru beinlínis rangar. Efling-stéttarfélag harmar það að fréttamaðurinn skyldi ekki hafa samband við félagið áður en villandi og rangar fréttir voru sendar út.Upphlaup og málatilbúnaður af þessu tagi þjónar einungis einum tilgangi, að grafa undan trausti á félaginu til lengri tíma og þar með styrk þess. Allar kannanir á trausti til Eflingar-stéttarfélags sýna svo ekki verður um villst, að félagið nýtur yfirgnæfandi trausts félagsmanna. Því er erfitt að átta sig á tilganginum með því að grafa undan þessu trausti með fölskum fréttum af þessu tagi. Það bitnar ekki á öðrum en félagsmönnum og félaginu sjálfu.Það er ámælisvert að Eflingu-stéttarfélagi var ekki gefinn kostur á að bregðast við fréttinni sem þess vegna fór athugasemdalaust og mjög lituð skoðunum lögmannsins í stað þess að birta frásögn þar sem jafnræðis væri gætt milli framboðanna. Efling-stéttarfélag harmar þessi vinnubrögð.