Sólveig Anna Jónsdóttir verður næsti formaður Eflingar-stéttarfélags og mun hún taka við af Sigurði Bessasyni, fráfarandi formanni, á aðalfundi félagsins þann 26. apríl nk. B listi Sólveigar Önnu fékk 2099 atkvæði en A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði. Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.
Úrslit kosninganna eru þannig:
Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði.
B listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fékk 2099 atkvæði.
A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði.
Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru 4.