Formaður fundar með leiðtogum hreyfingarinnar

28. 05, 2018

Sólveig Anna Jónsdóttir ásamt Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, formanni AFLs starfsgreinafélags
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, átti í dag góðan fund með Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur formanni AFLs starfsgreinafélags. Sólveig hefur auk þess átt fjölda funda með leiðtogum innan verkalýðshreyfingarinnar síðan hún tók til starfa þann 27. apríl síðastliðinn. Á þessum fundum hefur verið rætt um verkalýðsmál, jöfnuð og samfélagslegt réttlæti, stöðuna í kjarabaráttu einstakra hópa og sameiginlegar áherslur og samstarfsmöguleika innan heildarsamtaka verkalýðshreyfingarinnar.Sólveig Anna átti fund þann 8. maí með Kristjáni Gunnarssyni formanni Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og Kolbeini Gunnarssyni formanni Hlífar, en þessi félög hafa ásamt Eflingu myndað hið svokallaða Flóabandalag. Flóabandalagið hefur m.a. gert sameiginlega kjarasamninga og starfrækir fræðslusjóðinn Starfsafl.Þann 11. maí fundaði Sólveig Anna með Gylfa Arnbjörnssyni formanni og Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra ASÍ, en þar var m.a. farið yfir áheyrnaraðild Sólveigar að miðstjórn ASÍ.Sólveig Anna átti svo fund þann 14. maí með Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR og Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness. Þann 23. maí átti hún aftur fund með þeim ásamt Aðalsteini Árna Baldurssyni formanni Framsýnar. Þessir formenn hafa oft talað á svipuðum nótum um sínar áherslur í kjarabaráttu.Sólveig Anna átti góðan fund þann 16. maí með Birni Snæbjörnssyni formanni Starfsgreinasambandsins, en þar var rætt um sameiginleg hagsmunamál félaganna sem mynda sambandið og áherslur í komandi samningaviðræðum. Sólveig Anna hefur sérstaklega sóst eftir því að funda með formönnum aðildarfélaga SGS landið um kring, en þann 22. maí fundaði hún með Guðrúnu Elínu Pálsdóttur formanni Verkalýðsfélags Suðurlands og þann 24. maí með Sigurði A. Guðmundssyni formanni Verkalýðsfélags Snæfellinga. Auk þess hefur Sólveig Anna átt nokkra fundi með Drífu Snædal framkvæmdastjóra SGS.Sólveig Anna hefur einnig leitast við að kynnast forystumönnun annarra aðildarfélaga og landssambanda ASÍ en þann 28. maí fundaði hún með Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni formanni Rafiðnaðarsambands Íslands og Borgþóri Hjörvarssyni formanni Félags íslenskra rafvirkja og varaformanni Rafiðnaðarsambandsins.  Stéttarfélög utan ASÍ hafa einnig verið á dagskrá og átti Sólveig Anna fund þann 25. maí með Elínu Björg Jónasdóttur formanni og Helgu Jónsdóttur framkvæmdastjóra BSRB. Þann 8. maí hitti Sólveig Anna einnig Harald Frey Gíslason, formann Félags leikskólakennara.Á öllum þessum fundum hefur nýjum formanni Eflingar gefist dýrmætt tækifæri til að mynda tengsl við aðra leiðtoga verkalýðshreyfingarinar og stéttarfélaga og leggja grunn að áframhaldandi samstarfi í kjarabaráttu og um önnur hagsmunamál félagsmanna.