Opinn fyrirlestur og pallborð í boði Eflingar- stéttarfélagsEfling-stéttarfélag efnir til opins fundar fyrir félagsmenn og allan almenning undir yfirskriftinni Þjóðarsáttin og þróun ójöfnuðar á Íslandi. Á fundinum, sem haldinn verður 4. júní næstkomandi, mun Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði flytja erindi og að því búnu verður boðið til pallborðsumræðna. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Stóra myndin þar sem Efling býður til umræðna um vinnumarkaðstengd málefni sem kunna að skipta sköpum á komandi kjarasamningavetri.Á fundinum gefst tækifæri til að fá aðgengilega kynningu á rannsóknum Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar á ójöfnuði en þær birtust í bókinni Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi fyrr í vetur. Um leið er fundinum ætlað að skapa gagnrýna umræðu um arfleifð Þjóðarsáttarinnar, en í nýlegu kynningarefni Alþýðusambands Íslands hefur því verið haldið fram að lægstu laun hafi hækkað hlutfallslega meira en önnur laun síðan í Þjóðarsáttarsamningunum 1990. Rannsóknir Stefáns og Arnaldar draga upp allt aðra mynd, líkt og Stefán mun fjalla sérstaklega um í erindi sínu.Í pallborði að loknu erindi Stefáns sitja eftirtalin:
- Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í hagsögu
- Margrét Valdimarsdóttir, félags- og afbrotafræðingur sem m.a. hefur fjallað um áhrif ójöfnuðar á samfélög í rannsóknum sínum
- Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og höfundur fjölda ítarlegra úttekta um innlend og erlend efnahagsmál
Fundarstjóri er Þórhildur Ólafsdóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1 og umsjónarmaður Samfélagsins.Fundurinn er haldinn á Grand Hótel (Sigrúni 38, 105 Reykjavík) í salnum Hvammi á jarðhæð og hefst klukkan 16:30. Efni fundarins verður þýtt jafnóðum á enskan texta og varpað á skjá. Boðið verður upp á kaffi og létt meðlæti. Fundurinn er öllum opinn og ókeypis inn en honum verður einnig streymt í gegnum samfélagsmiðlasíður Eflingar.