Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:
Einn af merkilegustu sigrum nýfrjálshyggjunnar í lífi okkar er að hafa tekist að útbúa samfélagslegt ástand þar sem arðrán, stéttskipting og viðbjóðsleg auðsöfnun firrtrar yfirstéttar urðu sjálfsögð skipan mála. Með því að fjarlægja úr samfélagsfrásögninni hinn risavaxna og óendanlega fjandskap sem ríkir á milli eigenda auðmagnsins og vinnuaflsins, með því að útbúa þann falska „sannleika“ að við værum nú öll í sama liði var útbúið risavaxið tækifæri fyrir efri lög samfélagsins svo að þau gætu í næði sölsað undir sig þau efnhagslegu gæði sem þau ágirntust. Þetta var meðal annars gert með fjölbreyttum einkavæðingarverkefnum og með því að veita kapítalistum og útsendurum þeirra stórkostlegan aðgang að efnahagslegum völdum með ólýðræðislegum hætti, í gegnum yfirþjóðlegar stofnanir, með fríverslunarsamningum og með því að útbúa kerfi fyrir alþjóðlega stétt auðmanna svo að þeir gætu flutt fjármagnið sitt til og frá löndum og heimshlutum án erfiðleika (eins og öll vita eru á vorum dögum landamæri bara fyrir vesæla alþýðuna). Með því að blanda í ógeðslegan kokteil frjálsum markaði og illskilgreindum hugmyndum um lýðræði, bæta svo ofaní hann draumum fólks um hamingju og lífsfyllingu og bjóða upp á hann við öll möguleg og ómöguleg tækifæri gátu þau sem telja sig raunverulega eigendur alls unnið markvisst að því að raunverulega eignast allt.
Og það hefur sannarlega gengið glimrandi vel: Misskipting auðsins verður sífellt trylltari og mannkynið býr nú við þá skipan mála að fámennur hópur eignast stöðugt meira af auðæfum veraldar og ríkir yfir heimi þar sem viðbjóðsleg meðferð á vinnuafli og stöðugt náttúruníð eru skipun dagsins. Þetta skiptir meðlimi auðstéttarinnar engu máli enda eru þau „valdefld“ af hugmyndafræði sem gengur út á að sannfæra okkur öll um að auðræðið sé í raun hið sanna frelsi og að best sé að sátt ríki um að skilyrði auðvaldsins fyrir því hvernig samfélög manna séu rekin séu bestu mögulegu skilyrðin. Svoleiðis vinni jú allir.
Eitraður kokteill Ayn Rand
En eftir að hafa verið algjörlega afhjúpuð sem annarsvegar loddarar og hins vegar siðvillingar, á alþjóðavettvangi og innan þjóðríkjanna, í kjölfar hins risavaxna efnahagshruns og kreppunnar sem fylgdi, er yfirstéttin í vanda. Þeim reynist æ erfiðara að sannfæra fjöldann um að efnahagsmódel síðustu áratuga sé hið eina rétta, enda erfitt að fá fólk sem sjálft hefur upplifað afleiðingar hruns, kreppu, niðurskurðar og allra hinna fjölmörgu hörmunga sem viðbrögð nýfrjálshyggjunnar við innbyggðum og óumflýjanlegum krísum kapítalismans orsaka, til að samþykkja að halda áfram að drekka hinn eitraða Randíska kokteil. Í heimi þar sem eftirtaldar staðreyndir eru staðreyndir skal engan undra að fólki verði óglatt og leggi frá sér drykkinn: Ríkasta eina prósent mannkyns tók til sín 82% af öllum auði sem til varð í heiminum á síðasta ári á meðan fátækasti helmingur mannkyns jók auð sinn ekkert eða um 0%, þrír auðugustu Bandaríkjamennirnir eiga meiri auð en fátækasti helmingur bandarísku þjóðarinnar og ríkustu 10% Íslendinga eiga ríflega 70% auðsins í landinu, sem er hærri hluti af heildareignum en í flestum vestrænum löndum.
Brauðmolahagfræðin, hugmyndin um að auðsöfnun fárra gagnist fjöldanum best, er ein af Stóru lygum mannkynssögunnar og vitneskjan um það breiðist út. Sífellt fleiri fyllast löngun og vilja til að berjast á móti þessari fölsku túlkun á veruleikanum. Sífellt fleiri og háværari raddir segja: Við erum ekki öll í sama liði, hagsmunir allra eru ekki þeir sömu og við þurfum ekki annað en að líta á framferði hinna auðugu til að fá fyrir því sönnun.
Útsölumarkaður Stöðugleikans
Sífellt fleiri átta sig nú á að innleiðing nýfrjálshyggjunnar sem stýringartæki í lífi almennings hefur gert það að verkum að samfélagsleg sár hafa myndast allt í kringum okkur, vegna þess að kapítalistum og pólitískum útsendurum þeirra var gefið leyfi til að móta samfélagið að vild, því sem næst án nokkurar andspyrnu frá þeim sem þó sögðust vera málsvarar hinna vinnandi stétta. Sífellt fleiri átta sig á að í uppsveiflu jafnt sem niðurdýfu er barnafátækt staðreynd, það að öryrkjum er gert að komast af á upphæðum sem öll vita að duga ekki fyrir mannsæmandi lífi er staðreynd, að gömlu fólki úr verkalýðsstétt er gert að sætta sig við snautlegan ellilífeyri á meðan lífeyrissjóðirnir fjárfesta í gróðamaskínum fjármagnseigenda er staðreynd og það að fólk sem vinnur fulla vinnu á að sætta sig við það að geta aldrei strokið um frjálst höfuð efnahagslega, á sætta sig við að vera vinnuafl á Útsölumarkaði Stöðugleikans alla æfi.
Áratuga niðurskurður í velferðarkerfinu (markvisst skemmdaraðgerð á innviðum samfélagsins svo hraða megi einkavæðingarverkefninu), húsnæðismarkaður í höndum fjármagnseigenda sem fengið hafa frítt spil til að hagnast á þeim sjálfsögðu mannréttindum sem húsnæði er, forherðing og virðingarleysi gagnvart þeim sem vinna mikilvægustu störfin í samfélaginu, skeytingarleysi gagnvart umhverfisvá af áður óþekktri stærðargráðu; allt þetta er bein afleiðing af hugmyndafræði kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar. Allt þetta er afleiðing þess að leyfa fólki sem aðeins lætur sér umhugað um gróða að skipuleggja samfélag manna eftir sinni grunhyggnu, eigingjörnu og ömurlegu hentisemi.
Misskiptingarverkefni auðvaldsins óásættanlegt
Sífellt fleiri átta sig á að arðránið í sjálfu sér er óásættanlegt: Að krefja vinnuaflið um að lifa við stöðugt hugrænt misræmi, að krefja það um að samþykkja að arðránið sé besta og farsælasta leiðin til þess að skipuleggja samfélagið, þrátt fyrir að öll þess lifaða tilvera segi því annað, er algjörlega óásættanleg krafa. Krafan um hófsemi þeirra sem tilheyra stétt verka- og láglaufólks gagnvart forhertu misstéttskiptingarverkefni auðvaldsins er algjörlega óásættanleg krafa.
Hvernig er hægt að halda því fram í fullri alvöru að manneskja sem fær eftir heilan mánuð af vinnu tekjur sem ekki duga til að komast af á sé í sama liði og sá sem fær á mánuði margar miljónir? Öll hljóta að sjá að það er satt best að segja ósiðlegt að halda slíku fram.
Minnkun auðvaldsbyrðarinnar
Það getur vissulega fylgt því visst uppnám fyrir auðstéttina þegar þau sem halda uppi öllum stoðum þjóðfélagsins með vinnu sinni ákveða að „hagræða“ til að minnka auðvaldsbyrðina í eigin tilveru. Það getur vissulega fylgt því visst uppnám fyrir þau hátt settu að skipta út fölskum stöðugleika fyrir sanngirni og réttlæti. Það getur vissulega fylgt því visst uppnám fyrir talsmenn hins óbreytta ástands þegar vinnuaflið ræðst í það verkefni að fá samfélagið til að viðurkenna algjört grundvallarmikilvægi þess.
En hver getur á þessum tímapunkti í mannkynssögunni, andspænis öllu því sem við nú vitum um nýfrjálshyggjuna og afleiðingar hennar, allt sem við vitum um arðránið, látið eins og mikilvægara sé að taka tillit til hagsmuna auðvaldsins en hagmuna alþýðunnar? Hver getur haldið því fram að erfiðleikar í tilveru auðvaldsins séu of hátt gjald til að greiða fyrir það að ná árangri í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti?
Andspænis sífellt vaxandi misskiptingu eigum við engra kosta völ; við hljótum að ráðast sameinuð í það verkefni sem skiptir mestu máli: Að vekja til lífsins þau stórkostlega mikilvægu gildi sem öll barátta fyrir mannsæmandi tilveru allra byggir á: Samhyggð, samvinnu, samstöðu og þeirri sammannlegu vitneskju að við eigum öll óumdeilanlegan rétt á því að lifa með reisn í réttlátu samfélagi.