Gengið hefur verið frá samkomulagi við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) um þær hækkanir sem eiga að koma til starfsmanna vegna launaþróunartryggingar. Einnig var gengið frá samkomulagi vegna lífeyrisauka. Samkomulagið var undirritað þann 4. júní síðastliðinn. Talsverðar tafir hafa verið á greiðslu afturvirkrar launaþróunartryggingar frá samtökunum og fundaði m.a. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar með Pétri Magnússyni, formanni SFV, vegna málsins í maí og var hafinn undirbúningur að dómsmáli fyrir félagsdómi.
Vegna launaþróunartryggingar hækka heildarlaun starfsmanna, að frádreginni orlofs- og desemberuppbót, um 1,8% fyrir árið 2017 og verður það greitt í eingreiðslu eigi síðar en 10. júlí 2018.
Ný launatafla tekur gildi afturvirkt frá 1. janúar 2018 vegna launaþróunartryggingar.
Launaþróunartryggingin kemur til vegna þess að í kjarasamningum 2015 gerðu aðilar vinnumarkaðarins rammasamkomulag um sameiginlega launastefnu. Þar var kveðið á um að þeir sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt það launaskrið sem verður á almenna vinnumarkaðnum umfram það sem kann að verða á opinbera markaðnum.
Sjá eldri frétt um launaþróunartryggingu hér.
Lífeyrisauki
Gengið hafði verið frá samkomulagi við Reykjavíkurborg og ríki um sérstakan lífeyrisauka, til að jafna lífeyrisréttindi félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg, ríki og sjálfseignarstofnunum við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Samskonar samkomulag var gert við SFV og verður lífeyrisaukinn greiddur í formi hærra iðgjalds sem nemur nú 5,85% en mun síðan fara lækkandi.
Samkomulag í bígerð við fleiri stofnanir
Gengið hefur verið frá samkomulagi við Sorpu vegna launaþróunartryggingar og lífeyrisauka og verið er að ganga frá sams konar samningum við aðrar opinberar stofnanir.