Í frétt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag, 6. október, er slegið fram staðlausum fullyrðingum um meinta framkomu stjórnenda Eflingar við starfsfólk félagsins. Fullyrðingar blaðsins vekja undrun í ljósi þess að umrætt starfsfólk tjáði sig ekki sjálft við blaðamann þegar eftir því var leitað, líkt og viðurkennt er í fréttinni. Því er um óstaðfestar sögusagnir og dylgjur að ræða. Mikilli furðu sætir að Morgunblaðið kjósi að birta þannig sögusagnir frá ótilgreindum aðilum um heilsufar, meint ágreiningsmál og önnur viðkvæm málefni starfsfólks á nafngreindum vinnustað.Þær óstaðfestu frásagnir sem lagðar eru í munn starfsfólks Eflingar í fréttinni, án samþykkis þeirra, eru ekki aðeins rangar, heldur fela í sér grófar dylgjur og ásakanir um ámælisverð vinnubrögð í fjármálum á skrifstofum Eflingar. Einfalt er að svara þeim ásökunum.Frá því nýr formaður og framkvæmdastjóri hófu störf á skrifstofum Eflingar í lok apríl á þessu ári hefur verkferlum varðandi dagleg útgjöld verið fylgt samkvæmt venjum félagsins. Ákvarðanir um stærri útgjöld hafa verið bornar upp á fundum stjórnar, kynntar og samþykktar, líkt og ítarlegar fundargerðir eru til vitnis um. Enn fremur hafa nýir stjórnendur Eflingar tekið frumkvæði í að leita eftir ráðgjöf hjá hæfum aðilum um hvernig megi gera enn betur til að innleiða gagnsæi og fagmennsku í fjármálum Eflingar, svo sem með því að vinna út frá samþykktri fjárhagsáætlun sem gildi ár í senn.Allar breytingar sem gerðar hafa verið á fyrirkomulagi fjármála hjá Eflingu síðan nýir stjórnendur tóku við, þar með talið veiting prókúru til nýs framkvæmdastjóra, hafa verið gerðar í fullu samráði við stjórn og lögmann félagsins og samkvæmt kröfum sem gerðar eru hjá viðskiptabanka félagsins, Landsbankanum. Þá hafa stjórnendur fengið leiðsögn og ráðgjöf frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte, sem hefur á undanförnum árum annast endurskoðun ársreiknings Eflingar. Eru starfsmenn þess fyrirtækis nú með reglulega viðveru á skrifstofum félagsins til að veita aðstoð vegna forfalla starfsfólks á fjármálasviði.Hvorki formaður né framkvæmdastjóri Eflingar kannast við þá fullyrðingu blaðamanns Morgunblaðsins að fjármálastjóri hafi neitað að greiða reikninga frá Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanni sökum þess að þeir hafi ekki verið samþykktir af stjórn. Alda Lóa hefur með ótvíræðu samþykki stjórnar Eflingar unnið hið glæsilega kynningarverkefni „Fólkið í Eflingu“, og fyrir þá vinnu sína hefur hún að sjálfsögðu fengið greitt. Hafa þær greiðslur verið í fullkomnu samræmi við ákvörðun stjórnar um úthlutun fjármuna til verkefnisins, sbr. bókun í fundargerð af stjórnarfundi 23. ágúst 2018. Fjármálastjóri og bókari hafa annast meðhöndlun innsendra reikninga vegna verkefnisins athugasemdalaust. Fullyrðing Morgunblaðsins um að þær greiðslur hafi verið ásteitingarsteinn milli nýrra stjórnenda og fjármálastjóra félagsins er röng og stenst enga skoðun.Vegna gífuryrða blaðamanns um „harðstjórn“, „hreinsanir“ og þess háttar vilja stjórnendur þakka starfsfólki Eflingar fyrir þann mikla og góða samstarfsvilja sem það hefur sýnt nýrri stjórn og starfsmönnum sem hafa tekið til starfa eftir söguleg stjórnarskipti í vor. Upplifun nýrra stjórnenda er sú að starfsfólk Eflingar sé samhentur hópur sem nær undantekningalaust starfar saman af heilindum og krafti í þágu verkafólks.Stjórnendur Eflingar vísa fréttaflutningi Morgunblaðsins á bug. Þess er óskað að blaðið láti af því að gera starfsfólki félagsins upp tilhæfulaus klögumál og fara með dylgjur um starfsemi félagsins.
Virðingarfyllst,Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélagsViðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar-stéttarfélags