Stjórn Eflingar–stéttarfélags lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þess ástands sem nú ríkir á íslenskum atvinnumarkaði. Við krefjumst þess að yfirvöld taki sig á og að opinberar stofnanir sinni því eftirliti með verktökum sem þeim ber að sinna. Núverandi ástand er óásættanlegt og ekki boðlegt að eftirlitsstofnanir séu fjársveltar eða að stjórnmálamenn láti eins og vandamálin séu ekki til staðar eða leysist af sjálfu sér. Efling-stéttarfélag mun ekki standa aðgerðarlaus hjá og horfa á forherta atvinnurekendur komast upp með að beita öllum ráðum til að hafa af fólki umsamin laun, til dæmis með því að rukka starfsmenn um glæpsamlega háa húsaleigu fyrir að hýrast í kompum og kytrum.Eitt af því sem hefur gert núverandi ástand mögulegt er starfsemi starfsmannaleiga sem eru ein alvarlegasta uppspretta vandamála og misnotkunar á íslenskum vinnumarkaði. Starfsemi þeirra grefur undan öllu því sem verkafólk á Íslandi hefur barist fyrir og byggt upp með þrautseigju sinni og dugnaði.Við höfum séð dæmi um að komið sé fram við starfsmenn starfsmannaleiga eins og þeir væru réttlausir hlutir, en ekki fólk sem nýtur lögum samkvæmt allra sömu réttinda og annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Starfsmönnum starfsmannaleiga er ekki gerð grein fyrir réttindum þeirra samkvæmt kjarasamningum eða lögum og verktakar og starfsmannaleigur virðast gera allt til að koma í veg fyrir að starfsmenn nái að mynda tengsl hvor við annan eða við annað íslenskt verkafólk. Þannig er markvisst komið í veg fyrir að starfsmennirnir geti myndað þá samstöðu og tengsl sem þeir þurfa til að rétt hlut sinn.Það er sömuleiðis ólíðandi að verkafólk sé komið upp á atvinnurekandur eða starfsmannaleigur með húsnæði. Slíkt býður upp á misnotkun, eins og við í Eflingu höfum séð fjölmörg dæmi um.Efling-stéttarfélag krefst þess að erlent verkafólk sem hingað kemur til að starfa njóti fullra lög- og samningsbundinna réttinda.Við krefjumst þess að yfirvöld hætti að snúa blinda auganu að þeim stórkostlega vanda sem ríkir þegar kemur að aðbúnaði og afkomu erlends verkafólks.Við krefjumst þess að hætt verði að koma fram við vinnuafl á íslenskum vinnumarkaði sem „útsöluvöru“ og að fólk fái greidd mannsæmandi laun fyrir unna vinnu!Við segjum stopp, hingað og ekki lengra!Stjórn Eflingar-stéttarfélags