Viðtal við Guðmund Ævar Oddsson, dósent við Félagsvísinda- og lagadeild við Háskólann á Akureyri.
Á hátindi góðærisins var Guðmundur Ævar Oddsson í framhaldsnámi í félagsfræði í Bandaríkjunum. Námið var nýhafið og hann sat á spjalli við leiðbeinandann sinn. Guðmundur minntist á að margir samlanda hans segðu að það væri engin stéttaskipting á Íslandi. Á sama tíma bárust fréttir héðan af snekkjukaupum, sumarhöllum úti í sveit og gullflögumáltíðum hjá ríkasta fólki samfélagsins. „Hugmyndin um stéttleysi var auðvitað í svo mikilli mótsögn við stöðuna hér á landi,“ segir Guðmundur. „Ég komst fljótt á þá skoðun að stéttavitund Íslendinga væri áhugavert rannsóknarefni.“
Áratug síðar er Guðmundur enn að. Á dögunum spjölluðu þeir Daníel Örn Arnarson, stjórnarmaður Eflingar, um stéttaskiptingu og ójöfn tækifæri á opnum fundi í Gerðubergi. Spjallið vakti athygli fjölmiðla. (Upptöku af spjallinu má sjá hér að neðan). Í kjölfarið dúkkuðu upp kunnugleg viðbrögð. Samtök atvinnulífsins birtu árás á Guðmund á vef sínum undir titlinum „Allt rangt hjá dósentinum“. Í pistlinum var mikil áhersla lögð á að sanna hversu mikill jöfnuður sé á Íslandi. Í ítarlegu svari, sem birtist á Kjarnanum, lýsir Guðmundur hvernig samtökin „reyna að draga dul á þá staðreynd að það er kerfisbundinn ójöfnuður á Íslandi.“
Það er ekki án ástæðu að deilt er um þessa hluti. „Eftir því sem fólk er meðvitaðra um ójöfnuð, og um eiginlega stöðu sína í kerfinu, því líklegra er það til þess að taka höndum saman og berjast fyrir bættum hag,“ útskýrir Guðmundur. „Ríkjandi hugmyndafræði einstaklingshyggju er ekki heppileg í þessu. Hún skrifar afdrif fólks í lífinu á persónulegar ákvarðanir, dugnað og hæfileika. Hinum ríku er hampað fyrir elju og hugvitssemi en hinum undirskipuðu er legið á hálsi að vera latir. Slíkar skýringar horfa fram hjá mismunandi aðstæðum og tækifærum fólks.“
„Ef allir halda að þeir séu í millistétt, en þriðjungur nær ekki endum saman, þá er eins og hljóð og mynd fari ekki saman. Slíkt er ávísun á brostnar væntingar. Þær eiga það til að brjótast út í út í ergelsi og reiði, og fara þá stundum í fordóma- og öfgafullan farveg.“
Rannsóknir Guðmundar benda til þess að ör markaðsvæðing frá miðjum tíunda áratugnum og fram að hruni hafi aukið vitund Íslendinga um stéttaskiptingu. Í kjölfar hruns minnkaði efnahagslegur ójöfnuður, þegar hæstu tekjur lækkuðu og stóreignasöfn krumpuðust saman. Síðan hafa hæstu tekjur rokið upp, sem frægt er orðið. „Efnahagslegur ójöfnuður er að aukast í löndunum í kringum okkur, sem endranær. Þessari langtímaþróun eru gerð afar góð skil í bók Thomasar Piketty, Capital in the 21st Century. Minnkun ójafnaðar, til dæmis í kjölfar stríðs og kreppu, er undantekningin. Aukning er reglan.“
Fjöldi fræðirita hefur undirbyggt þessi gamalgrónu sannindi á undanförnum árum; að bilið milli ríkra og fátækra breikki í venjulegu árferði. Fræðin sýna, með öðrum orðum, að stöðugleiki eykur ójöfnuð. Jafnvel bissness-blaðið Financial Times og Davos, klúbbur ríkasta og valdamesta fólks heims, eru farin að leita svara við þessu vandamáli, þó án mikils árangurs. Lausnin, sem fyrri daginn, liggur í því að bágstaddar stéttir berjist sjálfar fyrir bættum kjörum.
„Þegar verða kerfisbundin áföll, þá vaknar fólk stundum til vitundar um mikilvægi samvinnu og samstöðu,“ segir Guðmundur. „Við sáum það eftir hrun, að það varð til ákveðin dýnamík. Það vakti von hjá almenningi að hægt væri að breyta samfélaginu til hins betra. Þegar fólk tekur höndum saman, til dæmis í fjöldahreyfingum og -samtökum, og fær á tilfinninguna að aðrir séu í sömu aðstæðum — ég held að það, öðru fremur, gefi fólki bjartsýni um að hægt sé að breyta málunum til hins betra og byggja réttlátara samfélag.“