Viðtal við Pétur Ármannsson, arkitekt um sögu félagslegs húsnæðis í Reykjavík
Pétur H. Ármannsson, arkitekt, hefur kannað hvernig húsnæðisvandi Reykvíkinga var leystur áður fyrr. Þann 29. september síðastliðinn flutti hann erindi á vegum Eflingar í Gerðubergi og útskýrði hvernig vandi okkar í dag er í grunninn ekki frábrugðinn vanda fyrri tíma. „Við höfum margra áratuga sögu af að takast á við húsnæðisvanda fyrir lægstu tekjuhópa,“ segir hann. „Sú saga hefur ekki fengið nægilega athygli á undanförnum misserum.“ Myndbandið af fyrirlestrinum má sjá hér að neðan.
Verkalýðshreyfingin sé í sterkri stöðu til að ná fram umbótum, sé stuðst við fordæmi sem reyndust vel. „Gárungar hafa stundum sagt að ef eitthvað tekst verulega vel í húsagerð hér á landi, þá er næsta víst að lausnin verði aldrei endurtekin.“ Það sé hægur vandi að bæta úr því.
Frá iðnbyltingu hefur fólk flust unnvörpum í borgir og margar leiðir verið farnar til að koma þaki yfir þau — af misjafnri hugulsemi. „Það var títt að fólk byggi í heilsuspillandi og lélegu húsnæði,“ segir Pétur, stundum í bröggum og stundum í lekum og hrörlegum hreysum, til dæmis í Höfðaborg. Með stórátökum verkalýðsfélaga og löggjafans var bætt úr þessu ástandi. Árið 1929 voru sett lög um verkamannabústaði og aðferð var þróuð sem átti eftir að reynast vel: byggingarfélag í þágu verkafólks fékk auðar lóðir og vönduð grunnteikning var gerð sem var útfærð á hverjum stað fyrir sig.
„Það kostar ekkert meira að skipuleggja vel en illa,“ segir Pétur. „Verkamannabústaðirnir við Hringbraut og húsin í Rauðarárholti eru gömul hús, en þau halda gildi sínu, því grunngæðin liggja svo mikið í skipulaginu.“
Til þess að smíði húsanna væri sem hagkvæmust var iðulega smíðað á óbyggðu landi án þess að grafa fyrir kjöllurum. Félagslegu íbúðirnar í Borgarholtshverfi í Grafarvogi segir Pétur vera gott dæmi. „Það liggur næst okkur í tíma, og eru að ég held nærtækasta dæmið til að vinna út frá. Í staðinn fyrir að gera dýran bílakjallara var byggt beint á jörðina. Það voru höfð opin svæði kringum byggingarnar og gönguleiðir á milli þeirra sem skapar barnvænt umhverfi.“ Húsin voru ekki höfð átta eða tíu hæða há, sem hefði varpað löngum skuggum. „Á Íslandi er sólin lágt á lofti á veturna. Fólk í dag hefur alveg gleymt sólinni í byggingu íbúðarhúsnæðis.“
Pétur segir núverandi aðferðir ekki til þess fallnar að smíða hratt og ódýrt. „Ég held að Reykjavíkurborg ætli að gera of marga hluti í einu. Það er dýrt og flókið að þétta byggð í eldri hverfum. Það mun aldrei nema að takmörkuðu leyti duga til að leysa þennan brýnasta vanda.“ Óttinn við að stór ný hverfi verði vandræðahverfi sé ekki á rökum reistur, þótt sá ótti sé oft viðraður. „Það heyrðist í Borgarholtsverkefninu líka að svæðið væri of stórt og félagslegar íbúðir of margar saman.“ Það hafi ekki orðið raunin.
Blokkirnar í Neðra-Breiðholti eru ein undantekning sem Pétur nefnir í sögu nýrra hverfa. „Yfirleitt fengu byggingaraðilar að ráða skipulagi á lóðunum. Í Neðra-Breiðholti var hins vegar búið að gera skipulag um U-blokkirnar.“ Það skipulag byggði á sögulegum samningum verkalýðsfélaga, atvinnurekenda og ríkisins í júlí 1965, um að byggja 250 íbúðir á ári í fimm ár. „Það gleymist oft að það var fyrst með Breiðholtsbyggingunum sem tókst að útrýma bröggum, Höfðaborg og öðru heilsuspillandi húsnæði.“
„Það væri mjög gagnlegt fyrir verkalýðsfélög að athuga gögn frá þeim samningum,“ bætir Pétur við, „til að sjá hvað virkaði.“
Sagan endurtekur sig ekki, en hún rímar. „Áður kom fólk utan af landi og bjó í mjög lélegu húsnæði. Nú komast börn, fædd í borginni, ekki að heiman, og innflutt vinnuafl er látið borga himinháa leigu fyrir svo lítið sem rúmpláss. Þetta er svo svívirðilegt, sem þeim er boðið uppá, að það er þjóðinni til skammar.“
Lausnirnar sem boðið er upp á í dag eru mestan part of dýrar. „Þetta er eins og með bankahúsin við Framnesveg,“ segir Pétur og lýsir húsaröð sem Landsbankinn lét byggja 1922-23 til að sýna fram á ágæti nýbygginga. Húsin voru kölluð verkamannabústaðir á teikningu. „Þetta var góð og gild hugmynd og falleg og vel hugsuð hús, en þau voru of dýr fyrir lægst launaða fólkið. Það var ekki fyrr en með lögum um verkamannabústaði að lausn fannst fyrir þennan hóp. Þau lög skiptu sköpum.“
Það kerfi er nú ónýtt, sem Pétur telur hafa verið stórfelld mistök. Nú sé brýnt að tína til það sem virkaði og reisa kröfur á þeim grunni. „Það er mikið í húfi fyrir verkalýðsfélögin að kynna sér söguna, finna út hvar vandinn liggur og mæta svo vel búin með markvissa kröfugerð og raunhæfar lausnir á húsnæðisvandanum til atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga.“