Nokkrar staðreyndir úr íslenskum raunveruleika:– 40% félagsmanna Eflingar eru í leiguhúsnæði og fjölgar í þeim hópi á milli ára.- Samkvæmt nýrri könnun Íbúðalánasjóðs er ástæða þess að fólk leigir en býr ekki í eigin húsnæði sú að fólk hefur einfaldlega ekki efni á að eignast eigið húsnæði. Jafnframt kemur fram að þeir leigjendur sem hafa lægstu tekjurnar hafa flutt oftast.- Lækkun íslenska ríkisins á vaxta- og leigubótum frá 2011 til 2016 nam 17,8 milljörðum króna.- Frá 2017 til 2018 lækkuðu útgjöld til þessara bótaflokka ennþá meira.- Rúmlega helmingur lágmarkslauna, eða 51%, er nú skattlagður að fullu.- Fjármagnstekjuskattur á Íslandi er 22%.- Samkvæmt forsætisráðherra Íslands hefur umræða um hátekjuskatt ekki hafist við ríkisstjórnarborðið.- Árið 2016 hækkuðu laun þingmanna um 44,3 %.- Bankastjóri Landsbankans hækkaði í launum um 61 % á milli 2015 og 2017.- Þau sem tilheyra ríkasta 5% samborgara okkar slógu 20 ára gamalt met í fyrra þegar þau á einu ári juku eigur sínar um ríflega 270 milljarða króna og eiga nú samtals tæpar 2.000 milljarða króna.- Ójöfnuður tekjuskiptingar á Íslandi eykst; hlutdeild ríkasta 1% samborgara okkar er nú 9,4 %.- Íslensk auðstétt veikir krónuna markvisst með því að flytja svokallaðan sparnað úr íslenskri krónu í erlenda gjaldmiðla.- Meðalheildarlaun kvenna sem eru félagsmenn í Eflingu voru í ágúst 412.000 krónur á mánuði fyrir fullt starf.Þá áttu þær eftir að standa skil á sköttum og gjöldum.- Vinnutími félagsfólks Eflingar hefur lengst um tæpa klukkustund á viku.- Um helmingur félaga í Eflingu hefur miklar áhyggjur af eigin fjárhagsstöðu.Nokkrar staðreyndir í viðbót:– Barátta alþýðufólks hefur alltaf verið barátta fyrir efnahagslegu réttlæti. Kjarni baráttunnar hefur ávallt verið og er enn mjög einfaldur: Að vinnuaflið geti lifað mannsæmandi og góðu lífi og hafi völd í samfélaginu.- Barátta verkafólks átti aldrei að einskorðast við það að sitja við samningsborð og ræða um launaprósentur; verkalýðshreyfingin er stofnuð til að berjast fyrir stórkostlegum samfélagslegum breytingum. Verkalýðsbarátta var í hugum þeirra sem stofnuðu hreyfinguna alhliða barátta fyrir lífskjörum alþýðunnar.- Og baráttan er sú sama í dag. Við berjumst fyrir öruggu og góðu húsnæði á eðlilegum kjörum. Við berjumst fyrir ókeypis heilbrigðiskerfi. Við berjumst fyrir jafnrétti á milli karla og kvenna, þeirra sem fæðast hér og þeirra sem hingað flytja. Við berjumst fyrir skólakerfi sem byggir á hugsjóninni um að öll börn eigi rétt á að vera mætt með skilningi og gæsku. Við berjumst fyrir því að gamalt fólk geti notið tilverunnar. Við berjumst fyrir samfélagi þar sem öryrkjar fá að lifa með reisn, frjáls undan bugandi áhyggjum af fjárhag og afkomu. Við berjumst fyrir samfélagi þar sem þarfir fólks, ekki fjármagns, eru ávallt í fyrirrúmi.Þess vegna er verkalýðsbaráttan há-pólitísk barátta. Þess vegna beinir hún kröfum sínum ekki aðeins til eigenda atvinnutækjanna og fjármagnsins heldur einnig og af sömu alvöru til stjórnvalda. Með markvissri baráttu og kröfum til þeirra sem ber skylda til að hlusta á okkur getum við skapað betra líf fyrir okkur öll og skapað réttlátt samfélag. Það eina sem þarf er trúin á samvinnu og samstöðu. Það kennir saga verka- og láglaunafólks okkur.Það er staðreynd. Sólveig Anna Jónsdóttirformaður Eflingar-stéttarfélags