Ný launakönnun: Hækkun heildarlauna er dræm, fjárhagsáhyggjur aukast og yfirgnæfandi samstaða ríkir um áherslu á hækkun lægstu launa í kjarasamningum. Einn af hverjum fjórum félaga Eflingar búa í leiguhúsnæði.
Smellið hér til að nálgast alla skýrsluna
Gallup framkvæmir launakönnun fyrir Eflingu stéttarfélag á ári hverju og veitir mikilvægar upplýsingar um kjör félaga. Könnunin er framkvæmd í september þar sem spurt er út í laun svarenda fyrir ágústmánuð. Niðurstöðurnar hafa mikla þýðingu fyrir stefnumótun félagsins þar sem að þær endurspegla kjör félagmanna og viðhorf til mikilvægra mála sem snerta starf þess. Þessar upplýsingar eru sérlega mikilvægar í aðdraganda kjarasamninga.
Yfirgnæfandi hluti félaga, eða 93,5%, er sammála því að leggja sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa í komandi kjaraviðræðum. Stuðningur við þá áherslu er heldur meiri nú en fyrir síðustu kjarasamninga þar sem 66% eru henni nú algerlega sammála miðað við 58% árið 2014. Í samræmi við þessi viðhorf vilja 81% félaga að samið sé um krónutöluhækkanir í komandi viðræðum og þ.a.l. hlutfallslega meiri hækkanir til handa láglaunafólki.
Könnunin í ár sýnir fram á þónokkra kjararýrnun meðal félaga í Eflingu miðað við fyrri ár. Verulega dregur úr hækkun heildarlauna en hún er 2% á milli ára að meðaltali, miðað við 10% árið áður. Á sama tíma lengist vinnutíminn um tæplega eina klukkustund á viku og vinnur félagsfólk nú að meðaltali 46,8 klukkustundir á viku miðað við fullt starf. Fjárhagsáhyggjur aukast og hefur tæpur helmingur félaga miklar áhyggjur af eigin fjárhagsstöðu. Þriðjungur félaga hefur leitað sér fjárhagsaðstoðar af einhverju tagi á síðastliðnum 12 mánuðum.
Meðalheildarlaun karla eru um 523 þúsund krónur fyrir ágúst á þessu ári en talsvert lægri hjá konum, eða um 412 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf. Leiðbeinendur á leikskólum og frístundaheimilum eru, líkt og í fyrra, með lægstu heildarlaunin eða 358 þúsund krónur á mánuði að meðaltali en sá hópur upplifir jafnframt mest álag í starfi. Skrifstofufólk, stjórnendur og sérfræðingar auk bílstjóra eru með hæst launin meðal Eflingarfólks eða um 573 þúsund krónur að meðaltali.
Húsnæðismál eru stór þáttur kjaraviðræðna sem nú eru að hefjast, einkum gagnvart Ríki. Á eftir beinum launahækkunum og hækkun persónuafsláttar eru húsnæðismál sá málaflokkur sem félagar telja mikilvæg. Slæmt ástand í húsnæðismálum kemur ekki síst illa við félaga Eflingar. Hlutfall félagsfólks sem að býr í eigin húsnæði minnkar frá því í fyrra úr 44% í rétt rúm 40%. Að sama skapi hækkar hlutfall leigjenda, úr 33% á síðasta ári í 40% 2018.
Hækkun heildarlauna Eflingarfólks heldur ekki í við verðbólgu
Þegar horft er til heildarlauna er hækkun frá ári til árs lítil eða 2% að meðaltali á meðan að almenn hækkun heildarlauna á samsvarandi tíma var 5% skv. tölum Hagstofu Íslands. Þannig fór meðaltal heildarlauna úr 470 þúsund kr á mánuði í 479 þúsund. Þessi takmarkaða hækkun heldur vart í við verðbólgu á tímanum sem var 2,2%. Þegar er horft til dagvinnulauna þá er hækkunin meiri eða 5,2% og fer úr 375 þúsund kr á mánuði í 394 þúsund í meðaltekjur og þar vegur 3% kjarasamningsbundin hækkun frá 1. maí 2018 þungt. Af þessu tölum er ljóst að félagar í Eflingu hafa dregist aftur úr öðrum hópum hvað varðar launahækkanir. Óánægja með laun er talsverð og hefur farið vaxandi frá árinu 2016 en tæpur helmingur svarenda er óánægður með laun sín og einungis 22% eru sáttir við launin. Ekki kemur á óvart að óánægjan helst í hendur við launastigann en 70% þeirra sem að hafa mánaðarlaun undir 350 þúsund krónur eru ósáttir við launin. Að meðaltali telja félagar að hækka þurfi heildarlaun um 80 þúsund krónur á mánuði.
Lægstu launin hjá leiðbeinendum
Af einstaka starfsstéttum eru leiðbeinendur á leikskólum og frístundaheimilum með lægstu dagvinnu- og heildarlaunin að meðaltali fyrir fullt starf eða 353.000 kr í dagvinnu og 363.000 kr í heildarlaun. Leiðbeinendur á leikskólum eru jafnframt lang ósáttastir með laun sín þar sem 8 af hverjum 10 eru mjög eða frekar ósáttir á meðan rétt undir 5 af hverjum 10 félaga í Eflingu segjast vera mjög eða frekar ósáttir með laun sín.
Skrifstofufólk, stjórnendur og sérfræðingar auk bílstjóra eru með hæstu heildarlaunin eða um 573.000 kr. á mánuði að meðaltali.
Vinnutíminn lengist að meðaltali
Heildarvinnutími félagsmanna í fullu starfi er 46,8 klst. að meðaltali og hefur lengst um tæpa klukkustund milli ára. Karlar í fullu starfi vinna 5 klst lengur en konur á viku, að meðaltali 48,6 klst á viku. Vinnutíminn er lengstur hjá bílstjórum eða 54,2 klst að meðaltali. Leiðbeinendur á leikskólum og frístundaheimilum vinna aftur á móti stysta vinnuviku eða 40,6 klst að meðaltali í fullu starfi.
Hlutfall litháísku- og pólskumælandi í leiguhúsnæði mun hærra
Um 40% félagsmanna Eflingar búa í eigin húsnæði og önnur 40% í leiguhúsnæði. 16% búa í foreldrahúsum og eru þeir langflestir yngri en 24 ára. Eftir standa 4% sem er í annars konar búsetu.
Hlutfall leigjenda er hæst á meðal þeirra sem eru á aldrinum 25 til 45 ára eða um og yfir helmingur þeirra félaga. Jafnframt er hlutfall þeirra sem svara könnuninni á erlendu tungumáli miklu hærra eða 68% þeirra sem svara á pólsku og 79% á meðal þeirra sem svara á litháísku.
Áhyggjur af fjárhagsstöðu aukast hjá flestum hópum
Versnandi staða lægstu tekjuhópanna kemur berlega fram í svörum við spurningu um fjárhagsáhyggjur þar sem hlutfall þeirra sem hafa „miklar áhyggjur“ af fjárhagsstöðu sinni eykst mikið eða úr 35% í 47% frá því í fyrra. Núverandi hlutfall er á svipuðu róli og árið 2014, fyrir síðustu kjarasamninga. Áhyggjurnar eru mestar meðal þeirra sem lægst hafa launin, þriðjungur félaga hefur leitað fjárhagsaðstoðar og 22% félaga hafa lent í erfiðleikum við að standa skil á afborgunum lána á síðustu 12 mánuðum.
Um könnunina
Markmiðið var að kanna kjör og viðhorf félagsmanna Eflingar.
Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir Eflingu – stéttarfélag í september og október 2018.
Síma og netkönnum meðal félagsmanna með íslenskum, pólskum og enskumælandi spyrlum
Úrtak 2932 einstaklinga en svarendur alls 1016 og svarhlutfall 34,7%