Fundur var haldinn í samninganefnd Eflingar – stéttarfélags fimmtudagskvöldið 20. desember. Á fundinn var vel mætt úr fjölmennri samninganefnd Eflingar. Rætt var ítarlega um stöðu samstarfsins milli Eflingar og annarra aðildarfélaga SGS innan sameiginlegrar samninganefndar og viðræðunefndar þar sem formaður Eflingar hefur átt sæti. Er þetta í fyrsta sinn í sögu Eflingar sem félagið hefur framselt samningsumboð sitt til SGS í kjaraviðræðum.Fram kom að nokkur áherslumunur er milli Eflingar og sumra annara aðildarfélaga SGS, sérstaklega hvað varðar áhuga á samstarfi við félög verslunarmanna og hvort tímabært sé að vísa viðræðum til Ríkissáttasemjara. Minnt var á að Efling veitti SGS samningsumboð sitt með skýrum fyrirvara um að gengið yrði til samstarfs við félög verslunarmanna. Rætt var um þýðingu þess að afturkalla umboðið frá SGS fyrir ýmsa þætti kjaraviðræðna og mögulegra aðgerða.Að loknum umræðum voru bókanir eftirfarandi efnis bornar undir atkvæði og allar samþykktar ýmist einróma eða með miklum meirihluta atkvæða:
- Samningsumboð Eflingar verði dregið til baka frá Starfsgreinasambandinu.
- Leitað verði áfram eftir breiðri samvinnu og samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðum.
- Formanni var veitt heimild til að leiða viðræður fyrir hönd Eflingar fram að næsta fundi samninganefndar og til að vísa kjaraviðræðum til Ríkissáttasemjara, komi til þess.
Samninganefnd kemur næst saman á nýju ári.