Kæru félagar, áður en lengra er haldið vil ég óska ykkur gleðilegs og farsæls nýs árs um leið og ég þakka innilega fyrir árið sem leið. Ég vona að barátta okkar fyrir betra lífi muni skila miklum og góðum árangri á nýju ári.
Þegar þessi leiðari er skrifaður, í upphafi nýs árs, hefur aðeins einn fundur farið fram hjá Ríkissáttasemjara á milli Samtaka Atvinnulífsins og Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness. Umræða um svokallaðan launalið er ekki hafin; Samtök atvinnulífsins hafa ekki svarað kröfu félaganna þriggja sem nú sitja sameinuð við samningaborðið um 425.000 króna lágmarkslaun í lok samningstímans.
Forsvarsmenn SA hafa þó talað opinberlega um svokallaða kyrrstöðusamninga, um að svigrúm til hækkana sé svo lítið að þeir telji best fyrir efnahagslegan stöðugleika að ekkert breytist. Augljóst er að við munum aldrei samþykkja slíka nálgun.
Við félagsmenn Eflingar vinnum við það sem kalla má undirstöðuatvinnugreinar. Við vinnum í ferðaþjónustunni; keyrum langferðabíla, eldum mat, þjónum gestum, þrífum hótel. Við vinnum í byggingariðnaðinum; reisum með vinnu okkar heimili fólks, gististaði, spítala. Vinna okkar heldur uppi velferðarsamfélaginu; við gætum barna og menntum þau, við sinnum umönnun og gætum að heilsu aldraðra og sjúkra. Við vinnum við framleiðslu; án vinnu okkar væri fiskur ekki flakaður og öll sú matvara sem samfélagið nærist á ekki í boði. Án vinnu okkar er ekki hægt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi, án vinnu okkar hættir velferðarkerfið samstundis að starfa, án vinnu okkar hætta eigendur atvinnutækjanna að græða. Án vinnu okkar er enginn hagvöxtur. Án vinnu okkar hefði verið ómögulegt að koma þjóðfélaginu upp úr þeirri djúpu og skelfilegu kreppu sem hömlu- og skeytingarleysi fjármálakerfisins, og stjórnmálastéttar sem starfaði í þágu þess, leiddi yfir Ísland. Þetta er hinn einfaldi og augljósi sannleikur.
En þrátt fyrir að þessi sannleikur hljóti að blasa við öllum sem skoða málin af sanngirni og réttsýni er kröfum okkar engu að síður mætt með óbilgirni og í sumum tilfellum forherðingu. Því miður heyrast hér háværar raddir þeirra sem láta eins og þau ein hafi rétt á að ákveða hver eiga að fá að njóta hagvaxtarins í „landi tækifæranna“, þau ein megi ákveða hvernig skipta eigi þeim gæðum sem vinna okkar býr til, að þegar kemur að efnahagsmálum sé best að vinnuaflið hafi ekkert um þau að segja. Það er í raun hörmulegt að hlusta á þau sem svona tala því í orðum þeirra opinberast einstaklega ólýðræðisleg og afturhaldssöm afstaða til samfélagsins, afstaða sem við hljótum að hafna alfarið.
Pólitísk og efnahagsleg valdastétt í þjóðfélagi sem vill kenna sig við lýðræði og jöfn réttindi allra á ekki að komast upp með að horfa fram hjá því grundvallaratriði sem efnahagslegt réttlæti er. Ef hún gerir það opinberar hún einfaldlega eigin hræsni. Því það er til marks um hræsni að tala um lýðræði og jafnrétti þegar fullkomlega sjálfsögðum kröfum vinnuaflsins um jafnari skiptingu gæðanna er mætt með vanstillingu og heimsendaspám, eða forneskjulegum hugmyndum um lengingu dagvinnutímans.
Meðlimum pólitískrar- og efnahagslegrar valdastéttar ber skylda til að taka heiðarlega afstöðu til þessarar spurningar: Treystir þú þér til að lifa við þau kjör sem verka- og láglaunafólki eru skömmtuð á Íslandi? Að því loknu ber þeim skylda til að vinna að því að tryggja öllum sem hér lifa og starfa mannsæmandi afkomu og líf með reisn. Fyrir fólk sem talar opinberlega um Ísland sem velsældarsamfélag byggt á grunni lýðræðis og mannréttinda ætti það að vera sjálfsagðasti hlutur sem hægt væri að hugsa sér.
Sólveig Anna Jónsdóttir
formaður Eflingar-stéttarfélags