Efling sendi í gær kvörtun til Persónuverndar um „skammarlista“ sem hékk á vegg í starfsmannarými Grand Hótel nýverið. Á listanum var starfsfólki raðað eftir því hve lengi það hafði verið veikt undanfarið ár.
Forsvarsmenn Grand Hótel hafa brugðist við frásögnum af þessum lista með rangfærslum í fjölmiðlum. Þetta hefur vakið alvarlegar spurningar um starfsanda og meðferð starfsfólks á hótelinu.
Talsverður fjöldi starfsfólks, sum þeirra meðlimir Eflingar og önnur ekki, hafa sett sig í samband við stéttarfélagið eftir að fjölmiðlar tóku að fjalla um málið. Þau hafa lýst undrun yfir ummælum yfirmanna, sem mörg þeirra kannast ekkert við, um sínar eigin vinnuaðstæður.
Ummæli framkvæmdastjóra mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum um að skammarlistinn „hékk ekki neins staðar uppi“ var tekið sem dæmi af nokkrum viðmælendum. Þau nafngreindu stjórnandann sem hengdi listann upp, og sögðu listann hafa verið á veggnum vikum saman.
Af þessum samtölum hefur orðið ljóst að skammarlistinn var aðeins eitt af mörgum atriðum sem hafa gert vinnustaðinn verulega óþægilegan fyrir lægst launaða starfsfólkið þar, sem flest eru erlendis frá.
Íslenskir yfirmenn virðast til dæmis ítrekað hafa niðurlægt og auðmýkt starfsfólk með því að rægja konu sem ætlaði að taka sér fæðingarorlof, krefjast þess að vera ávarpaðir með titli, baktala fólk sem fer frá vinnu til að fara á reglubundið íslenskunámskeið, og hóta starfsmanni brottrekstri fyrir að sýna sér ekki tilskilda virðingu.
„Þetta hefur verið svo frábær og samheldinn hópur árum saman,“ sagði einn starfsmaður sem kom á skrifstofu Eflingar í talsverðu tilfinningalegu uppnámi. „En nú eru þau alltaf að reyna að brjóta upp hópinn.“
„Þetta fólk er ekki vaxið starfinu sínu.“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, bendir á að hér sé um kunnuglegt mynstur að ræða. „Þetta er eitthvað sem við sjáum á mörgum hótelum. Íslendingar fá forgang í allar stjórnunarstöður, meðan útlendingarnir eru fastir á gólfinu. Og þessi skil eru síðan notuð til að halda verst launaða fólkinu með verstu störfin niðri.“
„Þegar við tölum við stjórnendur hótelanna segja þau svo að auðvitað passi þau starfsandann, því hann skili sér svo vel til gesta. Eins og vellíðan starfsfólksins geti ekki verið sjálfstætt markmið. Hvað ef þeim tekst að halda starfsandanum í felum fyrir gestunum? Er þá í lagi að níðast á starfsfólkinu?“