Félagsmenn Eflingar samþykktu boðun verkfalls 8. mars meðal hreingerningafólks á hótelum með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða. Af 862 greiddum atkvæðum voru 769 sem samþykktu boðunina, 67 greiddu atkvæði gegn og 26 tóku ekki afstöðu. Verfallsboðunin var því samþykkt með 89% atkvæða.
Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sagði niðurstöðuna mikinn byr undir báða vægi í komandi baráttu. „Félagsmenn hafa talað. Ég er innilega stolt af félagsmönnum okkar sem hafa sent mjög skýr og kröftug skilaboð með atkvæðum sínum. Það var ótrúlegt að upplifa andrúmsloftið á vinnustöðunum þar sem við skipulögðum atkvæðagreiðslur.“
Verkfallsboðunin telst nú samþykkt af félagsmönnum og verður afhent SA og Ríkissáttasemjara strax eftir að skrifstofur opna í dag, föstudaginn 1. mars.
Í dag mun Efling tilkynna um víðtækari verkfallsaðgerðir sem verða samstilltar með VR og ná lengra fram í tímann.
Efling þakkar öllum félagsmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem og kjörstjórn Eflingar og starfsfólki sem vann hörðum höndum að kosningunni.
Á kjörskrá voru 7950 einstaklingar og þátttaka var því rétt tæp 11%.