Eflingu –stéttarfélagi hafa borist fjölmargar stuðningskveðjur frá stéttarfélögum víða um heim og ljóst að verkfall hótelþerna á alþjólegum baráttudegi kvenna hefur vakið mikla athygli.
Svo dæmi séu tekin sendir Hotell- och restaurangfacket, HRF í Svíþjóð baráttukveðju til „hugrakkra systra og bræðra á Íslandi“ og óska öllum sem að verkfallinu standa velfarnaðar.
United Here, stéttarfélag hótelstarfsmanna í N-Ameríku sendir einnig kveðju þar sem þeir segjast standa með okkur á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna í baráttunni fyrir réttlæti og virðingu fyrir störfum láglaunakvenna um allan heim.
Svissneska stéttarfélagið IUF, alþjóðleg samtök launfólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði sendir stuðningskveðjur til hótelþerna og standa með okkur í baráttunni fyrir bættum lífskjörum og réttlátara samfélagi.
„Það er gríðarlega mikilvægt að finna fyrir stuðningi frá félögum okkur erlendis frá og það gefur okkur byr undir báða vængi.“ Segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Við göngum spennt og full tilhlökkunar inn í daginn og þökkum fyrir allar góðar kveðjur sem okkur berast.“