Efling sendir bréf til atvinnurekenda um að virða réttindi starfsfólks vegna verkfalla

12. 04, 2019

Efling – stéttarfélag hefur sent bréf til forsvarsmanna hótela og hópbifreiðafyrirtækja með áskorun um að láta starfsfólk ekki gjalda fyrir störf sín fyrir Eflingu í aðdraganda samningsgerðar, þar með talið í tengslum við verkföll.

Efling boðaði til víðtækra verkfallsaðgerða á hótelum og í hópbifreiðafyrirtækjum í aðdraganda samningsgerðar og til aðgerða kom dagana 8. og 22. mars og 1.-2. apríl.

Í tengslum við undirritun samnings var frekari verkfallsaðgerðum Eflingar aflýst og starfa aðilar vinnumarkaðarins nú undir friðarskyldu.

Talsvert var um verkfallsbrot og félaginu bárust einnig fregnir af ýmsum óeðlilegum þrýstingi einstakra atvinnurekenda í garð starfsmanna. Má þar nefna loforð um greiðslur, hótanir um frádrátt greiðslna og að starfsmenn hafi verið látnir gjalda á annan hátt fyrir þátttöku í verkföllum.

Samkvæmt 4. grein laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er atvinnurekendum með öllu óheimilt að reyna að hafa áhrif á þátttöku starfsmanna í starfi stéttarfélaga, þar með talið verkföllum. Brot á lögunum varða sektum og skaðabótum. Þá er samkvæmt 11. grein sömu laga óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmenn eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þeirra starfa. Í nýundirrituðum kjarasamningi er enn fremur að finna nýja bókun um vernd þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög með setu í stjórn, samninganefnd eða trúnaðarráði.

Efling og Samtök atvinnulífsins hafa undirritað sameiginlega yfirlýsingu um að öll deilumál og kröfur milli aðila vegna verkfallsaðgerða verði látnar niður falla. Mikilvægt er að sú sátt sem þar birtist sé virt af öllum aðilum vinnumarkaðar.

Í bréfinu, sem sent var fyrr í vikunni, er skorað á atvinnurekendur að virða friðarskylduna til fulls. Efling mun bregðast við af fullri hörku verði það þess vart að atvinnurekendur beini spjótum með óeðlilegum hætti gegn starfsmönnum vegna átaka á vinnumarkaði sem nú er lokið að sinni.

Afrit af bréfinu var sent til Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði af þessu tilefni: „Því miður hefur reynsla undanfarinna vikna kennt okkur að sumir atvinnurekendur eru í hefndarhug gegn starfsfólki sínu. Það er alltof algengt að atvinnurekendur telji sig hafa heimildir til að refsa starfsfólki fyrir þátttöku í starfi stéttarfélags, til dæmis í verkfallsvörslu eða að hafa komið fram opinberlega og tjáð sig um aðstæður á sínum vinnustað. Einnig höfum við séð dæmi um eins konar hóprefsingar, svo sem óheimilan launafrádrátt hjá IcelandAir Hotels. Skilaboð okkar til atvinnurekenda eru: Nú er mál að linni. Virðið réttindi starfsfólks.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Á síðustu vikum höfum við orðið vör við eitthvað sem ég get best lýst sem kúgunarkúltúr á íslenskum láglaunavinnustöðum. Atvinnurekendur hafa of lengi komist upp með gerræði og yfirgang, væntanlega af því að þeir halda að láglaunafólk eigi sér ekki rödd og málsvara. Verkfallsaðgerðir okkar, meðal annars hinn stórglæsilegi verkfalldagur 8. mars þar sem láglaunakonur sýndu mátt sinn og megin, sanna hins vegar að svo er ekki. Við erum sterk, við erum stolt og við stöndum saman um réttindi hvers annars. Þetta eru skilaboðin okkar til atvinnurekenda og þau breytast ekki þótt kjarasamningur liggi fyrir.“