Félagsmenn samþykkja kjarasamning við SA með miklum meirihluta atkvæða

24. 04, 2019

Kjarasamningur Eflingar við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var með fyrirvara um samþykki félagsmanna þann 3. apríl síðastliðinn, hefur verið samþykktur með miklum meirihluta félagsmanna í almennri atkvæðagreiðslu. Atkvæði meðal félagsmanna Eflingar féllu þannig:

  • Samþykktu samning: 1.516 (77,07%)
  • Höfnuðu samningi: 405 (20,59%)
  • Tóku ekki afstöðu: 46 (2,34%)

Af þeim sem tóku afstöðu samþykktu 79% samninginn, eða tæplega fjórir af hverjum fimm. Atkvæði greiddu 1.967 félagsmenn eða 10,16% af þeim 19.352 sem voru á kjörskrá. Atkvæði voru greidd bæði rafrænt og á pappír utan kjörfundar.

Á kjörskrá voru allir greiðendur iðgjalda sem störfuðu samkvæmt samningi Eflingar við SA í janúar og febrúar 2019, óháð starfshlutfalli, starfsaldri eða hvort viðkomandi hafi sótt um fulla félagsaðild að Eflingu.

Atkvæðagreiðsla stóð yfir 12.-23. apríl og var rafræn. Notast þurfti við Íslykil eða rafræn skilríki til að greiða atkvæði. Einnig var mögulegt að greiða atkvæði utankjörfundar og hafði skrifstofa Eflingar lengdan opnunartíma þrjá daga auk þess sem atkvæðum var safnað á vinnustöðum. Allir félagsmenn Eflingar fengu kynningarbækling á íslensku, ensku og pólsku sendan heim í pósti auk þess sem samningurinn var kynntur á opnum fundum og á vinnustöðum.

Samkvæmt kjarasamningnum munu öll taxtalaun hækka í þrepum um 90 þúsund á samningstímanum eða 30%. Samningstími er 3 ár og 8 mánuðir. Allar launahækkanir samningsins eru krónutöluhækkanir sem beinast að mestu til láglaunahópa umfram hærri tekjuhópa. Til viðbótar við hefðbundnar launahækkanir býður samningurinn upp á frekari launahækkanir sem tengdar eru við aukningu hagvaxtar á mann.

Aðkoma stjórnvalda að samningnum er veruleg, en fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar eru ígildi 15.900 kr. hækkunar mánaðarlauna og breytingar á barnabótakerfinu ígildi um 15.000 kr. hækkunar. Einnig kynntu stjórnvöld víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum og fleiri málaflokkum í tengslum við samninginn.

Í samningnum eru forsenduákvæði sem heimila uppsögn samnings verði skilyrðum um lækkun vaxta, kaupmáttaraukningu og aðkomu stjórnvalda ekki mætt.