Það var mikil gleði á vorfagnaði Eflingar þegar eldri félagsmenn mættu saman í hið árlega kaffiboð félagsins í Gullhömrum þann 5. maí sl. Hljómfagrir tónar mættu félagsmönnum og gestum þeirra þegar þeir mættu í hús því eins og fyrri ár spilaði Kristján Guðmundsson á flygilinn. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ávarpaði félagsmenn og var vel tekið. Sigríður Thorlacius söngkona tók síðan nokkur vel valin lög áður en byrjað var á glæsilegum veitingum. Að endingu hélt Ingólfur Þórarinsson eða Ingó Veðurguð uppi stuðinu en hann leiddi fjöldasöng og tók salurinn vel undir.