Menn í vinnu undirbúa gjaldþrot, Seigla ehf tekur við

Það fyrirtæki sem varð alræmt í vetur undir nafninu Menn í vinnu ehf. hefur nú skipt um nafn, skipt út öllum formlegum forsvarsmönnum og virðist stefna á gjaldþrot.

Fyrri forsvarsmenn og skuggastjórnendur fyrirtækisins róa engu að síður á sömu mið enn á ný undir öðru nafni og annarri kennitölu. Fyrirtækið nýstofnaða heitir Seigla ehf., og ráðleggur Efling fólki að hafa vara á sér gagnvart þessari nýstofnuðu starfsmannaleigu.

„Þau eru greinilega að loka húsinu og brenna síðustu skjölin,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Til þess að geta byrjað aftur þar sem frá var horfið.“

Fréttir voru fluttar af Menn í vinnu ehf. í byrjun árs, þegar reka átti starfsmenn fyrirtækisins úr húsunum sem þeir bjuggu í. Þeir höfðu samband við fjölmiðla og stéttarfélög og kvörtuðu undan vangoldnum launum, hótunum og  illri meðferð. Félagsþjónustur Kópavogs og Reykjavíkur skutu yfir þá skjólshúsi tímabundið og lögfræðistofan Réttur var fengin að beiðni Eflingar til að fylgja málinu eftir.

„Ég velti fyrir mér hvers vegna svona fyrirtækjum er yfirleitt leyft að starfa,“ segir Sólveig Anna. „Starfsmannaleigur eru til þess gerðar, og bara til þess, að selja aðgang að manneskjum, að vinnuafli, svo þriðji aðili geti grætt á því. Það er þeirra eina hlutverk. Að taka af vinnandi fólki laun sem eru með réttu þeirra. Siðferði og athæfi stjórnenda fyrirtækisins virðist algerlega í samræmi við það.“

Á grundvelli gagna sem Réttur hefur aflað er nú verið að athuga hvort ástæða sé til að kæra starfshætti fyrirtækisins og meðferð mannanna til lögreglu. Kröfur hafa verið sendar til fyrirtækjanna sem keyptu vinnuafl hjá Menn í vinnu ehf., á grundvelli ákvæða laga um keðjuábyrgð.

En hverjir eru þessir stjórnendur, og hverjir eru nú skráðir í forsvar fyrirtækisins?

Unnur Sigurðardóttir, sem áður var eigandi Menn í vinnu ehf., hefur nú verið leyst af hólmi af Nauris Golubeckis, 25 ára. Unnur var áður aðalmaður í stjórn og Friðrik Örn Jörgensen varamaður. Nú eru það fyrrnefndur Nauris og svo Janis Ziemelis, 24 ára. Nauris er nú framkvæmdastjóri, en áður var það Friðrik Örn. Nafni fyrirtækisins hefur verið breytt í MIV ehf.

„Þetta eru vinnubrögð sem við sjáum oft þegar forsvarsmenn fyrirtækja undirbúa gjaldþrot, oft í tengslum við kennitöluflakk,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. „Þegar öllum skráningum er breytt og raunverulegir stjórnendur og ábyrgðamenn láta sig hverfa, þá er fljótséð að erfiðara verður að rekja athæfi fyrri eigenda og þá brotastarfsemi sem þeir eru ábyrgir fyrir.“

Hvað varðar hið nýja fyrirtæki, Seigla ehf., þá er Unnur stjórnarmaður þar. Fjölmiðlar hafa greint frá því að sonur Höllu Rutar Bjarnadóttur, Elís Viktor Kjartansson, sé skráður eigandi þess.

Halla Rut er hvergi á skrá frekar en fyrri daginn, en hún sá um daglegan rekstur Menn í vinnu ehf. Hún kom einnig við sögu Verkleigunnar ehf., sem fór í þrot í fyrra eftir vanskil á 30 milljón króna launakröfum á hendur fyrirtækinu frá félagsmönnum Eflingar.

Í kjölfar gjaldþrotsins upphófust miklar deilur milli fyrrum stjórnenda með aðdróttunum um fjárdrátt, hótanir og frelsissviptingu.

Menn í vinnu ehf. hafa í kjölfarið ítrekað kvartað undan og jafnvel kært ummæli fólks um fyrirtækið, en kvörtununum hefur trekk í trekk verið synjað á einn eða annan hátt af Fjölmiðlanefnd, siðanefnd Blaðamannafélags Íslands og úrskurðarnefnd lögmanna.