Efling hefur sent hótelstjóranum Árna Val Sólonssyni erindi vegna ólöglegra hópuppsagna á hótelunum Capital-Inn, City Park Hotel og City Center Hotel sem hann rekur undir mismunandi kennitölum.
Í lok apríl, rétt eftir samþykkt nýrra kjarasamninga, sendi Árni Valur erindi á allt starfsfólk þar sem þess var krafist að það undirritaði uppsögn á starfskjörum sínum. Þau gætu valið að vera endurráðin á nýjum launakjörum, hönnuð „með það að markmiði að lækka launakostnað“. Ef þau samþykktu ekki á staðnum var það álitið jafngilda uppsögn. Nokkrum starfsmönnum hefur þegar verið sagt upp á grundvelli þessara afarkosta.
„Þetta er að okkar mati fullkomlega siðlaust athæfi,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. „Við erum nýbúin að undirrita kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, sem fyrirtæki Árna eru aðilar að. Þeir samningar byggja á því að hækka laun og bæta kjör fólks. Blekið er ekki þornað á samningnum þegar hann reynir svo að svíkja starfsfólk sitt um þær kjarabætur. Þar að auki er ákvæðum laga um hópuppsagnir ekki fylgt.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Árni Valur og framferði hans kemur við sögu Eflingar. Í október síðastliðnum uppgötvuðu eftirlitsfulltrúar Eflingar og annarra stéttarfélaga að Árni stóð í framkvæmdum við viðbyggingu á hóteli sínu City Park Hotel í Ármúla án tilskilinna leyfa. Vinnueftirlitið lokaði vinnustaðnum því þar var talin „veruleg hætta“ fyrir „líf og heilbrigði starfsmanna“. Byggingarfulltrúi ákvað líka að stöðva framkvæmdina fyrir sitt leyti vegna skorts á byggingarleyfi.
Þegar Efling hóf undirbúning fyrir hótelþernuverkfall 8. mars síðastliðinn reyndi Árni Valur að tálma þátttöku starfsmanna sinna í atkvæðagreiðslu. Í viðtali við Vísi útskýrði hann hvers vegna: „Ég veit að vel flestir ef ekki allir af mínum starfsmönnum vilja ekki fara í verkfall.“
Þegar kom að verkfalli þann 22. mars urðu verkfallsverðir Eflingar vitni að afleiðingum þessarar framkomu hótelstjórans. „Hann tók þar á móti okkur og starfsfólk var þar vinnandi,“ segir Ragnar Ólason, sviðsstjóri kjaramála. „Hann sagði að það kæmi okkur ekki við, þau væru ekki í Eflingu.“ Umrætt starfsfólk vann störf sem heyra undir kjarasamning Eflingar við SA og var því um verkfallsbrot að ræða.
Í erindi sínu til Árna Vals bendir Efling á fleiri vafasöm atriði í uppsagnarbréfinu sem kunna að varða við lög, til dæmis „nýtt yfirgreiðslufyrirkomulag“ sem á að miðast við „stéttarfélagsaðild“. Einnig er bent á að þeir ráðningarsamningar sem sagt var upp hafa margir óregluleg og teygjanleg starfshlutföll, upp á til dæmis „80-100%“, sem ekki stenst ákvæði kjarasamninga.
Forsvarsmönnum umræddra hótela hefur verið veittur 7 daga frestur til að bregðast við og draga ólögmætar uppsagnir sínar til baka. Efling áskilur sér allan rétt til launakrafna á hendur hótelunum fyrir hönd starfsfólks í samræmi við lög og kjarasamninga.
Afrit af bréfinu var sent til Samtaka atvinnulífsins og óskað eftir viðbrögðum.
Erindi Eflingar til hótela Árna Vals Sólonssonar dags. 8. maí 2019.