Hin árlega dagsferð Eflingar verður í lok sumars og nú var ákveðið að ferðast um uppsveitir Árnessýslu þar sem er að finna margar af fallegustu náttúruperlum Suðurlands. Við munum skoða marga áhugaverða staði og meðal þeirra helstu má nefna gamla bæinn að Tungufelli, Brúarhlöð sem er gljúfur sem Hvítá fellur um, fossinn Faxa í Tungufljóti og einnig komið við hjá Gullfossi og Geysi.
Síðdegis verður boðið upp á snæðing á hinum rómaða veitingastað Friðheimum sem er bæði veitingahús og tómatarækt í Reykholti í Biskupstungum. Þar verður boðið upp á einstaklega góða súpu að hætti staðarins og heimabökuð brauð.
Boðið verður upp á tvær ferðadagsetningar, tvo síðustu laugardagana í ágúst, 24. og 31. ágúst. Lagt verður af stað stundvíslega frá Guðrúnartúni 1 kl. 08:15 og áætluð heimkoma undir kvöld. Bókanir hefjast í dag, 15. maí, og er verð aðeins 6.000 kr. á mann.
Eingöngu er hægt að bóka í gegnum skrifstofu Eflingar eða bóka í gegnum tölvupóst – orlof@efling.is.
Heimilt er að taka með einn gest og greiðir hann sama verð. Frítt verður fyrir börn undir 14 ára aldri.
Um ferðina:
- Tungufell er sá bær á Suðurlandi sem fjærst liggur frá sjó og munum við skoða merka kirkju við gamla bæinn sem er í eigu Þjóðminjasafnsins.
- Fossinn Faxi í Tungufljóti í Biskupstungum er falleg náttúruperla og vinsæll viðkomustaður á leiðinni að Gullfossi.
- Brúarhlöð er gljúfur í Hvítá þar sem sjá má einstakar bergmyndanir sem Hvítá hefur myndað með farvegi sínum.