Samtök atvinnulífsins hafa sent bréf til félagsmanna sinna þar sem fallist er á sjónarmið Eflingar um markmið nýundirritaðra kjarasamninga, og mikilvægi þess að „umsamdar launabreytingar skili sér óskertar í launaumslagið“, eins og segir í bréfinu. Þetta var áréttað af Eflingu – stéttarfélagi í kjölfar þess að Árni Valur Sólonsson, hótelstjóri, sagði upp launakjörum starfsfólks síns. Hann hafði áformað að lækka laun þeirra til móts við hækkun taxta. Lögfræðileg álitamál því tengd eru nú til skoðunar hjá lögmanni stéttarfélagsins.
„Við fögnum því auðvitað að Samtök atvinnulífsins láti félagsmenn sína vita af þessu, enda var þetta nákvæmlega það lagalega og siðferðilega sjónarmið sem við höfum haldið fram frá því málið kom upp,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Til þess að svokallaður friður á vinnumarkaði sé yfirleitt í boði á Íslandi þá verða nákvæmlega þessi atriði að vera í lagi. Einstakir atvinnurekendur mega ekki skjóta sér undan samningnum, og heildarsamtök þeirra verða að bregðast við þegar þeir reyna það.“