Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar átti í dag fund með Alexandru Gradinar, sendiherra Rúmeníu gagnvart Danmörku og Íslandi. Fundurinn var haldinn að ósk sendiherrans en á honum var fjallað um mál rúmenskra starfsmanna fyrirtækisins Menn í vinnu, sem leituðu til Eflingar á síðastliðnum vetri vegna illrar meðferðar. Sendiherrann, sem hefur aðsetur í Kaupmannahöfn, var staddur hér á landi í tilefni þjóðhátíðardags Íslands 17. júní og hitti í heimsókn sinni íslenska ráðamenn.
Birkir Már Árnason lögmaður hjá lögmannstofunni Réttur var viðstaddur fundinn en stofan fer nú með mál 18 rúmenskra verkamanna að beiðni Eflingar. Kynnti hann stöðu málanna ítarlega fyrir sendiherranum. Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar og Ragnar Ólason sviðsstjóri kjaramála greindu frá aðkomu Eflingar og svöruðu spurningum sendiherrans.
Á fundinum kom fram að mikill áhugi er af hálfu rúmenska sendiráðsins að fylgjast með málinu gegn Mönnum í vinnu sem og almennum kjörum og hagsmunum rúmenskra ríkisborgara á Íslandi en þeim hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Sendiherrann sagði frá samstarfi sendiráðsins við verkalýðsfélög í Danmörku, þar sem einnig er stórt samfélag Rúmena. Sendiherrann var upplýstur um aðkomu kjaramálasviðs Eflingar og vinnustaðaeftirlits ASÍ að málum starfsmanna Manna í vinnu sem og áherslu Eflingar á aukna þjónustu við félagsmenn af erlendum uppruna. Sendiherrann þakkaði Eflingu fyrir aðkomu sína að málinu.
Efling þakkar sendiherra Rúmeníu kærlega fyrir góðan fund og vonast eftir áframhaldandi samskiptum og samstarfi við sendiráðið vegna rúmenskra félagsmanna Eflingar.