Skrifað hefur verið undir endurskoðaða viðræðuáætlun við Reykjavíkurborg og ríkið. Þar kemur fram að viðræður verða teknar upp að nýju um miðjan ágúst og fyrirhugað er að klára kjarasamning fyrir 15. september.
Vegna þeirra tafa sem verið hafa á samningsgerð fá starfsmenn greidda innágreiðslu á kjarasamning þann 1. ágúst uppá 105.000 kr. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019.
Staðan hjá Reykjavíkurborg
Efling hefur setið nokkra fundi með Reykjavíkurborg. Enginn árangur hefur náðst í þeim viðræðum. Er það m.a. vegna þess að borgin neitar að ræða um raunstyttingu vinnutímans sem kemur mjög á óvart þar sem Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi tilraunaverkefnis um þannig styttingu, með mjög góðum árangri. Þessum árangri hefur borgin hampað á málþingum og fundum.
Gangur viðræðna við Samband íslenskra sveitarfélaga
Viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa staðið yfir undanfarnar vikur og hefur þeim viðræðum nú verið vísað til ríkissáttasemjara. Er það vegna þess að SÍS hefur ekki viljað efna loforð sem gefin voru við kjarasamningsgerð árið 2015 um jöfnun lífeyrisréttinda fyrir starfsfólk sveitarfélaga. Um þessi sjálfsögðu réttindi hefur þegar verið samið við Reykjavikurborg og ríkið. Þau greiða sérstakan lífeyrisauka sem nemur 5,91%. Þetta samsvarar tæpum 18 þúsund krónum á mánuði fyrir fólk á lægstu launum.
Efling og önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa verið í samfloti í þessum viðræðum og hafa þau sammælst um að það komi ekki til greina að halda viðræðum áfram nema að lífeyrisréttindi starfsfólks sveitarfélaganna innan ASÍ verði jöfnuð í samræmi við fyrri loforð. Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila næst til fundar 21. ágúst.
Staðan hjá ríkinu
Á samningafundum hefur verið rætt um styttingu vinnuvikunnar og leggur félagið mikla áherslu á að í þessum samningum náist raunstytting á vinnutíma. Tilraunaverkefni yfirvalda hafa sýnt að vellíðan, heilsa og vinnuumhverfi batni verulega við slíka styttingu. Samninganefnd Eflingar telur því augljóst að hér komi ekki til greina að slá af kröfum.
Viðræður við hjúkrunarheimili verða teknar upp þegar búið er að semja við ríkið en Efling hefur gert kröfu um innágreiðslu einnig frá þeim.