Agnieszka Ewa Ziolkowska tók við sem varaformaður Eflingar á aðalfundi félagsins 29. apríl sl. Hún hefur síðastliðin fjögur ár verið trúnaðarmaður á vinnustað sínum, Almenningsvögnum Kynnisferða, og hefur i gegnum það starf öðlast mikla reynslu af félagsstörfum. Hún kom til landsins fyrir tólf árum og þekkir því vel að vera útlendingur á íslenskum vinnumarkaði. Staða sem margir félagsmenn Eflingar kannast við enda helmingur félagsmanna af erlendum uppruna. Þann 1. ágúst nk. mun hún hefja störf á skrifstofu Eflingar. Við hjá Eflingarblaðinu settumst niður með henni til að forvitnast um þessa sterku konu sem hefur helgað drjúgum hluta frítíma síns í að hjálpa vinnandi fólki og er nú komin í forystu eins annarra stærstu stéttarfélaga landsins.
„Ég fæddist í Póllandi 5. mars 1984 og kláraði stúdentspróf árið 2004 en gat vegna fjölskylduástæðna ekki haldið áfram námi. Ég var í nokkrum störfum, vann á veitingastað og á skrifstofu í nokkur ár.“ Agnieszka segir að hún hafi ung byrjað að vinna. „Mamma og pabbi áttu verslun þegar ég var lítil og ég hjálpaði þeim frá unga aldri í búðinni ásamt því að gæta bróður míns sem er sjö árum yngri en ég.“ En hvernig kom það til að hún flutti til Íslands?
„Faðir minn kom til Íslands árið 2007 og ég fór í heimsókn til hans ári seinna. Þegar ég sá hvernig Ísland leit út og hvernig fólkið var, dýrkaði ég strax landið og ákvað að flytjast hingað.“ Agnieszka fékk vinnu hjá ræstingarfyrirtækinu ISS þar sem hún vann í nokkur ár. „Ég vann í afleysingum þannig að ég keyrði á milli staða.“ Hún segir að þá fyrst hafi hún tekið eftir því hversu ósanngjarnt launakerfið hér er. „Þarna var fólk að vinna við mjög mismunandi þrif, að þrífa á spítölum þar sem verklagið er allt annað en t.d. á bókasöfnum en samt fá allir borgað það sama þrátt fyrir að ekki sé um sömu vinnu og ábyrgð að ræða.“ Árið 2011 minnkaði ISS vinnutímana við Agnieszku og vildi að hún samþykkti nýjan og verri ráðningarsamning. Það samþykkti hún hins vegar ekki. „Ég hætti og nýtti tímann m.a. til íslenskunámskeiðs og tók síðar meiraprófið.“ Hún segir að í fyrstu hafi hugmyndinni um að taka meirapróf verið varpað fram í gríni en það hafi svo orðið að veruleika enda finnist henni skemmtilegt að keyra. Hún fékk í kjölfarið vinnu hjá Almenningsvögnum Kynnisferða sem strætóbílstjóri þar sem hún hefur unnið síðustu sex ár og verið trúnaðarmaður í fjögur.
Í dag býr hún í Vogum á Vatnsleysuströnd með eiginmanni sínum og tveimur ungum sonum og unir hag sínum vel. „Mér líður vel hérna, þetta er góður staður til að vera með börn, ég er með góðan garð en auðvitað erum við með húsnæðislán eins og aðrir.“ Það hefur tekið á að standa í víglínunni um baráttu fyrir réttum kjörum vinnufélaga en Agnieszka segir að hún hafi notið dyggs stuðnings fjölskyldu sinnar.
Engin yfirvinna vegna trúnaðarmannastarfa
„Þegar ég varð fyrst vör við alls konar vandamál sem komu upp í vinnunni og áttaði mig á að það væru peningar í húfi fyrir samstarfsfólk mitt spurði ég það hvort þau vildu ekki velja trúnaðarmann á vinnustaðnum. Ég kom því með eyðublaðið og þau skráðu öll nafnið mitt,“ segir Agnieszka aðspurð hvernig það hafi komið til að hún varð trúnaðarmaður. Hún segir að þessum fjórum árum sem trúnaðarmaður hafi hún orðið vitni að margs konar vanda. Eitt af því sem hún segir að geti reynst trúnaðarmönnum erfitt er að þurfa að útskýra fyrir samstarfsfólki ef það hefur ekki rétt fyrir sér. Stundum hafi það verið vegna þess að fólk hafi ekki haft aðgang að kjarasamningi á sínu tungumáli eða það hafi verið tungumálamisskilningur á milli þeirra og yfirmanna.
„Mér fannst líka stundum erfitt að fá nákvæmar upplýsingar frá Eflingu, þegar ég kom til að fá eitthvað staðfest fékk ég kannski nokkur mismunandi svör.“ Hún segir einnig að henni hafi ekki verið gert auðvelt fyrir af hálfu fyrirtækisins. „Mér var t.d. ekki boðin yfirvinna eins og öðrum og þegar ég fór á skrifstofuna og spurði hvort það væri verið að refsa mér fyrir að hjálpa fólki fékk ég yfirvinnu í einn eða tvo daga en svo ekki neitt.“ Agnieszka segir líka að oft á tíðum hafi henni verið úthlutað verstu strætisvögnunum t.d. þeim sem voru með bilaða loftræstingu. „Fyrirtækið vildi oft á tíðum ekki vinna með mér og það var ekki fyrr en Efling gekk í málið með mér sem ég fékk einhver svör.“
Það er augljóst að Agnieszka lætur ekki deigan síga þó á móti blási en aðspurð af hverju hún hafi verið trúnaðarmaður svo lengi þrátt fyrir mótlætið segir hún: „Ég finn til ábyrgðar vegna fólksins sem kaus mig, það hafa að vísu margir skipt um vinnu en margir eru enn frá því að ég byrjaði. Ég finn til ábyrgðar að ljúka þeim málum sem ég er byrjuð á. Mér hefur margoft verið ráðlagt að skipta um vinnu en mér fannst ég ekki geta það fyrr en nú.“
Miklar breytingar
Agnieszka segir að vinnustaðurinn hjá Almenningsvögnum Kynnisferða hafi breyst mikið á þessum árum sem hún hefur starfað þar. „Þegar ég byrjaði vorum við fjórar frá Póllandi, þetta var lítil deild, einungis tuttugu manns.“ Hún segir að það hafi verið áður en fyrirtækið hafi fengið samning um að keyra á fleiri leiðum. „Núna eru bílstjórarnir um 115–120 talsins. Um 85% af þeim eru útlendingar, flestir frá Póllandi,“ segir hún.
Við spyrjum Agnieszku hvort fólk hafi ekki sett það fyrir sig að trúnaðarmaðurinn þeirra væri ekki íslenskur og ekki altalandi á íslensku. „Það hafa aldrei komið upp vandamál vegna tungumálsins, þegar ég gerðist trúnaðarmaður voru bara tuttugu bílstjórar, bæði frá Póllandi og Íslandi. Ég gat talað við þá ensku, íslensku og pólsku.“
Þegar talið berst að réttindum útlendinga á íslenskum vinnumarkaði þá er ekki úr vegi að spyrja Agnieszku hvort henni finnist mikilvægt að erlendur félagsmaður sé í forystu Eflingar? „Ég efast ekki um að það sé mikilvægt, vinna mín fyrir félagið getur leitt til breytinga og hjálpað útlendingum að verða partur af íslensku samfélagi. Pólverjar eru t.d. svolítið einangraðir, þeir vinna mikið og hafa ekki mikinn frítíma. Helmingur félagsmanna Eflingar er af erlendu bergi brotinn og það er mikilvægt að forysta félagsins endurspegli þann fjölda.“
Aðrar áskoranir fyrir erlent starfsfólk
Mætir fólk af öðrum uppruna annars konar áskorunum á íslenskum vinnumarkaði heldur en Íslendingar?
„Mörg láglaunastörf eru í höndum útlendinga, maður sér þá í þeim störfum en sjaldnar í hærri stöðum. Mér finnst það ekki sanngjarnt þar sem oft á tíðum er þetta vel menntað fólk en fær ekki menntun sína metna vegna tungumálsins.“ Hún tekur dæmi úr sínu vinnuumhverfi og nefnir strætóbílstjóra sem margir eru af erlendu bergi brotnu. Vinnuumhverfið er allt annað en að keyra rútur á þjóðvegum landsins, það er mun meira stress og mjög stuttar kaffipásur. Farþegarnir eru ekki ferðamenn sem vilja njóta þess að sjá fallega náttúru heldur þreytt fólk sem heldur til og frá vinnu. Bílstjórarnir eru alltaf í kappi við að halda tímaáætlun. Álag og ábyrgð bílstjóranna skilar sér því miður ekki í launaumslagið. Vinna frá kl. 8–17 gefur af sér 317.000 kr. brúttó eftir fimm ár í starfi. Þetta eru sömu laun og fólk fær fyrir starf sem það þarf enga menntun í og ber minni ábyrgð. Þetta er ekki réttlátt.“
Það liggur beint við að spyrja Agnieszku hvað henni finnist um nýgerðan kjarasamning.
„Þetta er erfið spurning, lífskjarasamningurinn er góður samningar en ég er ekki ánægð með launatöfluna. Það er ósanngjarnt að bílstjórar fái svona lág laun en beri svona mikla ábyrgð. Í öðrum störfum er hægt að skreppa frá í nokkrar mínútur eða bregðast við ef hringt er frá leikskóla barnsins þíns en strætóbílstjórar þurfa alltaf að vera á leið og halda henni.“
Verðum að vera meðvituð
Það verður ekki hjá því komist að spyrja varaformanninn hvaða viðhorf hún hafi til þess að læra íslensku.
„Ef fólk ætlar sér að setjast að á Íslandi er það mun einbeittara að læra íslensku, vegna þess að þeim líkar að vera hér og með því að læra tungumálið er auðveldara að verða partur af samfélaginu.“ Hún segir að hins vegar séu margir sem ætli sér stutta viðdvöl og jafnvel safna sér fyrir húsi í sínu heimalandi en ílengist. Fólk ætli sér ekki endilega að setjast hér að og sé því ekki að hugsa um að læra málið. „Það eru margir útlendingar ánægðir í vinnu því þeir vita ekki að það er svindlað á þeim. Ég sé því miður að oft eru gefnar rangar eða misvísandi upplýsingar og þess vegna er mikilvægt að miðla þeim einnig á ensku og pólsku.“
Hún segir að þess vegna sé nauðsynlegt að Efling haldi fundi á fleiri tungumálum en íslensku og bjóði upp á túlkun á þeim fundum sem haldnir séu á íslensku. Gott dæmi um hvernig við getum verið ómeðvituð um mikilvægi þess að miðla upplýsingum til allra er fundur sem haldinn var á vinnustaðnum hennar. „Hjá Kynnisferðum var haldinn fundur þar sem tilkynnt var um fjöldauppsagnir hjá rútubílstjórum. Þrátt fyrir að meirihluti starfsmanna hafi verið erlendir var ekki séð fyrir neinni túlkun heldur var allt útskýrt á íslensku. Það er náttúrulega út í hött.“
Agnieszka stóð í ströngu í verkfallsaðgerðunum í vor. Hún skipulagði ásamt vinnufélögum sínum aðgerðir á vinnustað þeirra. „Það var mikil vinna og ég og mínir samstarfsfélagar eyddum stórum hluta af okkar frítíma í að skipuleggja, það sýnir bara hversu óánægð við erum með vinnuaðstæður og laun. Ef fólk er ánægt á vinnustaðnum sínum þá skipuleggur það ekki verkföll.“
Of mikill munur á milli launa
Hver er þín framtíðarsýn fyrir Eflingu?
„Ég vil sjá meiri upplýsingar á ensku og pólsku fyrir útlendinga og að kjarasamningar séu þýddir líka á ensku. Það hefur reyndar verið lagst í meiri vinnu núna en áður við að þýða efni frá Eflingu eftir að ný stjórn tók við og kjarasamningar verða þýddir á ensku. Öll þjónusta við erlenda félagsmenn hefur reyndar batnað með nýrri stjórn. Ég vil einnig sjá meira af praktískum námskeiðum fyrir útlenska félagsmenn, t.d. upplýsingar um skattkerfið á Íslandi sem þvælist fyrir mörgum og um lífeyrissjóðskerfið því ég veit að útlendingar hafa ekki þessar upplýsingar þegar þeir koma til landsins.“ Agnieszka segir að þegar hún hafi sjálf komið til landsins fyrir tólf árum hafi einfaldir hlutir flækst fyrir henni eins og t.d. hvernig tryggingamálum er háttum varðandi bíla. „Það er nauðsynlegt að við komum grunnupplýsingum til erlendra félagsmanna, þeir eru helmingur félagsins og við þurfum að hugsa um fólkið sem fæddist ekki hér á Íslandi og þekkir ekki reglurnar.“ Hún segir að fyrir suma hljómi það eflaust skrýtið að halda þess konar námskeið en stundum sé það ómögulegt að finna réttar upplýsingar. Helmingur námskeiða hjá félaginu þyrfti því að vera miðaður að þörfum erlendra félagsmanna í samræmi við hlutfall þeirra innan félagsins.
Að lokum spyrjum við Agnieszku hver séu helstu baráttumálin sem Efling stendur frammi fyrir?
„Stærsta baráttan er gegn fyrirtækjum sem svindla endurtekið á fólki. Við eigum að geta sektað þessi fyrirtæki verði þau uppvís að brotum. Af hverju eiga fyrirtæki að komast upp með það að geta stolið af fólki? Ef ég borga ekki reikningana mína á réttum tíma þá þarf ég að borga aukagjald. Sama ætti að gilda um fyrirtæki sem gera mistök eða svindla á fólki. Það er líka of mikill munur á milli launa, ef við lítum t.d. á háttsett fólk innan bankakerfisins eða í pólitík þá er það með mjög há laun samanborið við manneskju á lágmarkstaxta. Þó að Efling fari ekki með kjarasamninga fyrir fólkið á hærri laununum þá getum við hjá félaginu haft skoðun á þessu og hvatt til breytinga. Það er einfaldlega allt of mikill launamunur hér á Íslandi. Það er nánast engin millistétt heldur lægri og efri stétt,“ segir Agnieszka að lokum.