Nýir kjarasamningar voru samþykktir í apríllok á almennum vinnumarkaði. Þeir komu strax til áhrifa með sautján þúsund króna launahækkun. Sumir atvinnurekendur reyndu þó að smeygja sér undan þessari kjarabót. Yfirmaður Capital Hotels bauð starfsfólki sínu að samþykkja kauplækkun til móts við kjarasamningshækkunina, ellegar missa vinnuna.
Efling sendi umsvifalaust bréf á hótelstjórann og afrit á Samtök atvinnulífsins. Ýmsir gallar voru á framkvæmd uppsagnarinnar og ráðningarkjörum starfsfólksins. Launalækkunin var hins vegar stærsta málið, enda er skrifað í kjarasamning að kauphækkanir skuli koma til, ekki bara á lágmarkstaxta, heldur á öll laun. Þetta ákvæði var sett í bókun „um almennar hækkanir“ árið 2011 og hefur haldist í kjarasamningnum við Samtök atvinnulífsins síðan.
Þess vegna komu fyrstu viðbrögð Samtaka atvinnulífsins á óvart. Þau neituðu að uppsögn launakjaranna væri óeðlileg eða framkvæmd á rangan hátt og minntust ekki einu orði á þá tilætlun hótelstjórans að núlla út kjarasamningsbundna launahækkun.
Voru samtökin að gefa grænt ljós á að hunsa launahækkanirnar, jafnvel bókstaf samningsins?
Miðstjórn Alþýðusambandsins tók undir áhyggjur Eflingar og áskildi aðildarfélögum „rétt til þess að lýsa yfir einhliða riftun nýgerðra kjarasamninga við þessa sömu atvinnurekendur,“ hefja nýjar viðræður við þá og „beita til þess öllum tiltækum og lögmætum þvingunaraðgerðum […] þar með talið verkföllum.“
En hvað ef það væri ekki bara einn atvinnurekandi? Hvað ef það er ekki bara einn hótelstjóri sem tekur þessa afstöðu, heldur heildarsamtökin sem undirrituðu kjarasamninginn?
Það var bara eitt til ráða; að auglýsa eftir fleiri dæmum um ámóta svindl og vísa ábendingum til lögmanns Eflingar. Svo voru Samtök atvinnulífsins boðuð á fund. Svindl-herferðin fór í gang í blöðum og á netinu og ábendingum var safnað. Herferðin minnti félagsmenn á að kjarasamningurinn átti að hækka launin þeirra og vakti fólk til umhugsunar um rétt yfirmanna til að lagfæra laun eftir hentisemi. Herferðin var áminning á báða bóga.
Á fundinum áttu fulltrúar Eflingar ítarlegt samtal við fulltrúa SA um tilgang kjarasamninga og reglur um uppsagnir. Málalyktir urðu þær að samtökin sendu bréf á sína félagsmenn með þeim skilaboðum að það væri „mikilvægt að umsamdar launabreytingar“ skiluðu sér „óskertar í launaumslagið.“ Þau tilfelli af launaskerðingum „með beinni vísan til Lífskjarasamningsins“ væru „óheppileg tilvísun“.
Efling fagnaði þessum afdráttarlausa stuðningi en hótelstjórinn hélt uppteknum hætti og sagði starfsfólki sínu ósatt um afstöðu stéttarfélagsins og hvernig málið hefði farið. Olli það starfsfólkinu talsverðri furðu þegar Efling gaf út yfirlýsingu um málið á ensku og pólsku þar sem aðrar upplýsingar komu fram en hótelstjórinn hafði haldið fram. Er þetta ekki í fyrsta skipti sem einangrun erlends starfsfólks frá upplýsingastraumum samfélagsins hefur verið nýtt til að halda réttindum þeirra utan seilingar.
Mál hótelstjórans og annarra fyrirtækja sem svindl-herferðin fletti ofan af eru nú í ferli hjá lögmanni og félagssviði Eflingar.