Síðustu daga hafa verið fluttar fréttir af dómsmáli Eflingar gegn starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu og matreiðslufyrirtækinu Eldum rétt, fyrir hönd fjögurra verkamanna frá Rúmeníu. Mennirnir voru leigðir af Eldum rétt frá Mönnum í vinnu í vetur, en þegar upp komst um óboðlegar aðstæður þeirra í febrúar fól Efling lögfræðistofunni Rétti að gæta hagsmuna þeirra.
Gagna var aflað frá mönnunum sjálfum, Mönnum í vinnu og Vinnumálastofnun. Eftir ítarlega athugun voru kröfubréf send á Menn í vinnu og forsvarsmenn fyrirtækisins en einnig – á grundvelli nýrra laga um ábyrgð notendafyrirtækja (keðjuábyrgð) — á þau fyrirtæki sem leigt höfðu verkamennina. Var í þeim kröfum aðeins beðið um endurgreiðslu á vangoldnum launum og ólögmætum frádrætti auk innheimtukostnaðar. Þessi bréf voru send 17. apríl og var frestur til að láta uppi afstöðu gefinn til 1. maí. Öll fyrirtækin urðu við þessu nema Eldum rétt, sem beið til 10. maí og hafnaði þá alfarið sinni ábyrgð.
Undirbúningur málsins hélt áfram þar til í júní, þegar var lögð fram stefna til endurgreiðslu vangoldinna launa og ólögmæts frádráttar, auk miskabóta fyrir nauðung og vanvirðandi meðferð sem rúmensku mennirnir höfðu mátt þola. Stefnan var birt Eldum rétt, Mönnum í vinnu og forsvarsmönnum Manna í vinnu og svo lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. júní.
Hvað er keðjuábyrgð?
Vegna þess hversu auðveldlega rekstrarform starfsmannaleiga býður upp á réttindabrot gegn starfsfólki var í fyrra hert á lögum um ábyrgð fyrirtækjanna sem versla við þau. Þessi lög innleiða „keðjuábyrgð“, sem gerir notendafyrirtæki á borð við Eldum rétt ábyrg fyrir því að starfsmenn sem vinna fyrir fyrirtækið njóti allra lög- og kjarasamningsbundinna lágmarkskjara, jafnvel þótt umræddir starfsmenn séu ekki beint ráðnir heldur leigðir í gegnum starfsmannaleigu.
Hvers vegna Eldum rétt?
Í tilfelli Eldum rétt telur Efling engan vafa á að fyrirtækinu ber að axla keðjuábyrgð fyrir öllum þeim brotum sem framin voru gegn starfsmönnunum sem fyrirtækið leigði frá starfsmannaleigunni Menn í vinnu. Ítarleg umfjöllun í fjölmiðlum um málefni Manna í vinnu – sér í lagi fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í október – gerir ábyrgð fyrirtækisins á því að ganga úr skugga um réttindi og velferð starfsmannanna sérstaklega ríka. Ekki aðeins urðu mennirnir fyrir ólögmætum frádrætti af launum (aðferð við að hlunnfara starfsmenn sem Menn í vinnu hafa beitt af mikilli leikni) heldur voru þeir að mati Eflingar einnig beittir nauðung og vanvirðandi meðferð. Keðjuábyrgð merkir samkvæmt lögum að Eldum rétt ber ábyrgð á þessari misnotkun.
Í stað þess að gangast við ábyrgð sinni hefur Eldum rétt kosið að taka upp sömu málsvörn og Menn í vinnu, nefnilega að samningarnir sem verkamennirnir undirrituðu hafi leyft frádrátt af launum. Það er þó auðséð, ekki síst í ljósi orðspors og sögu fyrirtækisins, að heimildir um slíkt í ráðningarsamningum voru vægast sagt hæpnar. Að mati Eflingar voru þessar heimildir hannaðar eingöngu til að bjóða upp á misnotkun, svo sem alþjóð varð vitni að í fréttum af uppgjöri fyrirtækisins við starfsmennina í febrúar – þar sem verkamönnunum var hent peningalausum úr iðnaðarhúsnæðinu sem þeir höfðu verið látnir leigja. Þær upphæðir sem dregnar voru af mönnunum vegna húsaleigu voru ennfremur úr öllu samhengi við veruleikann, jafnvel að teknu tilliti til hás leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu.
Enn fremur voru laun þeirra eftir frádrátt ekki greidd möglunarlaust. Einn fyrrum starfsmanna Eldum rétt þurfti að bíða til 26. febrúar að fá greitt fyrir vinnu sem hann innti af hendi 1.-15. janúar.
Í þessu máli hefur Eldum rétt, eitt notendafyrirtækja, kosið að líta framhjá illri meðferð Manna í vinnu á starfsfólki sínu og lýst sig lagalega stikkfrí. Öllum kröfum var hafnað í byrjun og aðeins gengist við allra þrengsta skilningi keðjuábyrgðar nú, með áþekkum rökum og Menn í vinnu hafa haldið fram.
En Eldum rétt talar um að þeir hafi aðeins unnið í fjóra daga?
Þegar bréf voru send á notendafyrirtækin 17. apríl var gefinn drjúgur tími til svars, þar sem fyrirtæki settu sig í samband og sendu gögn. Á þeim grundvelli var unnið að því að rétta hlut starfsmannanna í samstarfi við fyrirtækin. Eldum rétt hefur hins vegar ekki látið nein gögn í té og ekki kosið að gera vinnutíma fyrrum starfsmannanna að umræðuefni fyrr en dómsmálið kom til umræðu í fjölmiðlum. Hefur framkvæmdastjóri Eldum rétt þar ýmist talað um að þeir hafi unnið „að meðaltali“ eða „samtals“ í fjóra daga, eftir því hvenær hann er spurður.
Hvers vegna er farið fram á fjórar milljónir?
Í stefnunni gegn Mönnum í vinnu og Eldum rétt er krafist endurgreiðslu á ólögmætum launafrádrætti en einnig miskabóta fyrir þá svívirðu sem mennirnir voru látnir sæta. Þegar framkvæmdastjóri Eldum rétt bað um fund með fulltrúum Eflingar í liðinni viku lagði Efling fram sáttatilboð þar sem Eldum rétt hefði greitt hluta þeirrar upphæðar til mannanna. Ekki reyndist vilji til að ræða málið á þeim forsendum, heldur gaf þar að líta áframhald þeirrar viðleitni framkvæmdastjóra Eldum rétt til að skjóta sér undan ábyrgð á illri meðferð starfsmanna sinna.
Hver er ábyrgð Vinnumálastofnunar?
Framkvæmdastjóri Eldum rétt hefur reynt að gera Vinnumálastofnun ábyrga fyrir því að hann gekk til viðskipta við Menn í vinnu, þar sem stofnunin varaði hann ekki við fyrirtækinu. Forstjóri Vinnumálastofnunar hefur séð sig knúinn til að leiðrétta þennan misskilning á hlutverki stofnunarinnar, það sé ekki í hennar verkahring „að gefa þessu fyrirtæki heilbrigðisvottorð“.
Það skýtur einnig skökku við að Eldum rétt kalli eftir bættu eftirliti með starfsmannaleigum, en þegar lagaleg úrræði til að fyrirbyggja brot eru á kostnað fyrirtækisins sjálfs segir framkvæmdastjórinn að það sé ósanngjarnt.
Að mati Eflingar – stéttarfélags eru starfsmannaleigur verulega vafasamt og hættulegt rekstrarform sem ber að forðast. Eftir þá umfjöllun sem hefur verið um þær undanfarið ár, sér í lagi um Menn í vinnu og stjórnendur þess fyrirtækis, ætti sú afstaða ekki að þurfa frekari skýringar.