Ríki og Reykjavíkurborg hafa ákveðið að borga innágreiðslu upp á 105.000 krónur til félagsmanna í Eflingu þann 1. ágúst. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur á hinn bóginn bannað sínum meðlimum að greiða upphæðina út.Í fjölmiðlum var í gær birt bréf frá samninganefnd sveitarfélaganna þar sem þessi skipun er sett fram. Þar er ástæðan fyrir banninu sögð vera vísun kjaradeilu Eflingar og SGS-félaganna til ríkissáttasemjara. Deilunni var vísað þangað því samtalið hafði siglt í strand, eins og fyrr hefur komið fram.
Í bréfi samninganefndar SÍS er vísað til hinnar „alvarlegu kjaradeilu“ þar sem samninganefnd SÍS „stendur í eldlínunni að verja gríðarlega fjárhagslega hagsmuni sveitarfélaganna“.„Hvað þá með fjárhagslega hagsmuni lægst launuðu starfsmanna sveitarfélaganna?“ spyr Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Fólksins sem sinnir grundvallarstörfunum, þeim störfum sem samfélagið allt reiðir sig á að séu unnin? Enn eina ferðina á að senda þau grimmilegu skilaboð til þess hóps vinnuaflsins á Íslandi sem sannarlega vinnur mikilvægustu störfin að þau séu svo lítils virði í augum háttsetts valdafólks í opinbera kerfinu að það megi ekki einu sinni greiða þeim 105.000 krónur inn á komandi samninga.“Ástæðan fyrir því að samið var um þessa innágreiðslu var einföld. Sökum þess að viðræður hafa dregist úr öllu hófi sættust samningsaðilar á að starfsmenn opinbera geirans ættu ekki að bíða lengur eftir kauphækkunum í takt við almenna markaðinn.Þrátt fyrir þetta hefur samninganefnd SÍS ákveðið að undanskilja lægst launaða starfsfólk sveitarfélaganna.„Grimmd og skeytingarleysi samninganefndarinnar eru óskiljanleg,“ segir Sólveig. „Háttsett og vel launað valdafólk hefur hér ákveðið að refsa láglaunafólki fyrir þann „glæp“ stéttarfélaganna að vísa kjaradeilu til ríkissáttasemjara.“Ein sveitarstjórn hefur ákveðið að sýna manndóm og sanngirni, og lýst því yfir að innágreiðslan muni ná til allra. Nú standa spjót á hinum sveitarstjórnunum.„Vilja kjörnir fulltrúar um land allt, fólk sem sjálft er á góðum launum, virkilega vera þekkt fyrir það að ætla að hafa 105.000 krónur af því fólki sem sannarlega munar um þessa upphæð?“ spyr Sólveig.