Vegna fréttaflutnings DV um Menn í vinnu

23. 07, 2019
DV hefur enn á ný gefið út frétt um mál starfsmannaleigunnar Menn í vinnu sem byggð er á hæpnum grunni. DV hefur áður birt viðkvæmar upplýsingar um starfsmenn Manna í vinnu án leyfis, til dæmis bankainnistæðu og kennitölu starfsmanns. Þær upplýsingar hafði blaðamaður DV fengið frá forsvarsmanni Manna í vinnu.
 
Efling hefur vísað fyrirspurnum DV til lögmanns sem fer með málin fyrir hönd félagsins og starfsmannanna. Hefur þeim fyrirspurnum yfirleitt ekki verið svarað vegna trúnaðar- og þagnarskyldu. Efling sendir ekki gögn um félagsmenn eða mál þeirra til fjölmiðla.
 
Efling hefur fylgt málum gegn Mönnum í vinnu eftir af festu. Í tilfelli hvers og eins starfsmanns hefur verið lögð vinna í að afla nauðsynlegra upplýsinga, gagna og umboða. Mál hafa verið meðhöndluð ýmist af kjaramálasviði Eflingar eða lögmannstofunni Rétti. Þar sem Efling telur að um brot sé að ræða heldur félagið málum til streitu, þótt þau taki tíma.
 
Félagsmenn sem hafa spurningar um gang mála sinna geta leitað til félagsins til að fá upplýsingar um þau.