Efling hvetur ESB til að beita sér gegn hernámi Ísraels

20. 08, 2019

Samtök stéttarfélaga í Evrópu sem berjast fyrir réttlæti í Palestínu hafa sent bréf á utanríkismálafulltrúa Evrópusambandsins, Federicu Mogherini. Þar er þess krafist að staðið sé við lagalegar skuldbindingar sem varða ísraelskar landnemabyggðir á palestínsku landi.Landnemabyggðir á hernumdum svæðum teljast stríðsglæpur samkvæmt Rómarsáttmálanum, sem liggur til grundvallar alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum, ICC. Árið 1998, þegar landnám á hernumdum svæðum var skilgreint sem stríðsglæpur, dró Ísrael sig úr samstarfi um dómstólinn. Ísland er hins vegar ásamt aðilum Evrópusambandsins hluti af samkomulaginu og teljast Evrópulönd til helstu stuðningsaðila þess.Bréfið til Federicu Mogherini var undirritað af fulltrúum 34 evrópskra stéttarfélaga, þeirra á meðal Eflingu – stéttarfélagi, eftir ákvörðun stjórnar þar um. Þar er bent á skyldu ESB-ríkja til að eiga ekki viðskipti við ólöglegar landnemabyggðir, og það harmað að ekki sé staðið við þá skyldu.Athygli vekur að eftir landtöku Rússlands á Krímskaga var slíkt viðskiptabann sett á hiklaust af hálfu Evrópusambandsins, með sambærilegum lagarökum. Líkt og hópur lögfróðra benti ESB á árið 2015, þá er „ekki beðið um meira en samkvæmni“ í beitingu ákvæðanna.Federica Mogherini hefur svarað kröfunni. Hún tekur undir að landnemabyggðirnar séu ólöglegar, auk þess sem þær feli í sér „hindrun á friði“ og hætti á „að gera tveggja-ríkja lausnina ómögulega“, en sú lausn hefur áratugum saman verið álitin útgönguleið úr langvarandi stríðsástandi fyrir botni Miðjarðarhafs. Hið skelfilega ástand sem ríkir meðal palestínsku þjóðarinnar undir oki hernáms, og ekki síður þeirra sem voru gerð landflótta árið 1948, hefur aftur kynt undir stríði og hryðjuverkum lengi og víða.Í ljósi þess að hernám Palestínu hefur valdið miklum hamförum meðal Palestínumanna, og að því er viðhaldið bæði með vörnum og aðgerðaleysi stórvelda, eru vonbrigði að Mogherini tekur ekki undir beiðni um að synja hernumdum svæðum um evrópsk viðskipti. Aðeins eru tilteknar þær veiku aðgerðir sem Evrópusambandið hefur þegar tekið til, sem felast í að gefa landnemabyggðunum ekki aðgang að vildarviðskiptum.Á undangengnu ári skutu hersveitir Ísraelsríkis til dauða um tvöhundruð mótmælendur, þar á meðal tugi barna, og blaðamenn innan landamæra Gaza, og særðu þúsundir. Þetta var fordæmt af mannréttindasamtökum og allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Friðsamlegar þrýstiaðgerðir hljóta að vera æskileg lausn á hryðjum hernáms og ofríkis, og það er miður að Evrópusambandið hyggist ekki nýta sér þau tæki sem það hefur til að koma á friði.Bréf ETUI til Federicu Mogherini