Gerðar hafa verið skipulagsbreytingar á skrifstofum Eflingar – stéttarfélags. Meginatriði breytinganna eru einfölduð skipting á verkefnum skrifstofunnar eftir sviðum og veruleg styrking á hlutverkum sviðsstjóra. Markmiðið er að bæta þjónustu við félagsmenn en með breytingunum skapast svigrúm til endurskoðunar og umbóta á öllum verkferlum.Almenn móttaka erinda og afgreiðsla umsókna í sjóði félagsins (orlofs-, fræðslu- og sjúkrasjóð) og þjónusta VIRK fellur nú undir nýtt Þjónustusvið. Við stjórn þess tekur Ingibjörg Ólafsdóttir en hún flyst nú úr starfi sviðsstjóra starfsendurhæfingar (VIRK) hjá Eflingu.Til verður nýtt Félags- og þróunarsvið sem fer með fræðslumál, kynningarmál, trúnaðarmannakerfi og annað félagsstarf Eflingar. Nýráðinn yfirmaður sviðsins er Anna Gunnhildur Ólafsdóttir sem tekur til starfa 2. september. Anna Gunnhildur starfaði áður sem framkvæmdastjóri Geðhjálpar og er hún boðin velkomin til starfa hjá Eflingu.Nýr sviðsstjóri kjaramála, Sylvía Ólafsdóttir, tók til starfa þann 12. ágúst síðastliðinn. Sylvía er lögfræðingur að mennt og starfaði áður hjá Sjúkratryggingum Íslands. Skipulagsbreytingar hafa ekki áhrif á verkefni kjaramálasviðs en Sylvía mun leiða umbætur og endurskoðun verkferla á sviðinu.Einnig verða til tvö ný stoðsvið sem starfa þvert á ofannefnd þrjú svið. Þau eru Rekstrarsvið, undir stjórn Óskars Arnar Ágústssonar fjármálastjóra, og Mannauðs- og skrifstofusvið undir stjórn Berglindar Rósar Gunnarsdóttur skrifstofustjóra.Sveinn Ingvason sem gegnt hefur stöðu sviðsstjóra orlofsmála um árabil mun áfram annast rekstur og umsjón orlofshúsa, en þau verkefni munu nú heyra undir Rekstrarsvið.Þá tekur til starfa nýtt svið, Skrifstofa formanns, en undir það munu heyra kjarasamningagerð, rannsóknir, stefnumótunarvinna, vinnustaðaeftirlit og samskipti félagsins við gagnaðila og samstarfsaðila á vinnumarkaði. Ragnar Ólason, sem gegnt hefur starfi sviðsstjóra kjaramála, gengur í nýtt starf sem sérfræðingur á Skrifstofu formanns.Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði í tilefni breytinganna: „Kjarasamningagerð síðasta vetrar krafðist fullrar athygli okkar, en nú er komið að næsta verkefni sem er að bæta þjónustu félagsins. Það er fyrirheit sem ég gaf í framboði mínu til formanns Eflingar og hyggst standa við. Við ætlum líka að rækta tengslin betur við félagsmennina okkar, þannig byggjum við öflugt félag og gefum verkafólki tæki til að verja sinn rétt. Ég veit að hinn frábæri starfsmannahópur Eflingar mun leggja sig allan fram um að ná árangri í þessu öllu.“Agnieszka Ewa Ziolkowska varaformaður Eflingar segist hafa upplifað sterka kröfu félagsmanna um að félagið afgreiði erindi félagsmanna hraðar og betur. Hún vonast til að með þessum breytingum verði þessari kröfu mætt. „Atvinnurekendur hafa búið til gríðarstórt, reyndar alltof stórt, verkefni fyrir stéttarfélög með framkomu sinni við launafólk. Það er óásættanlegt. Við ætlum að styðja starfsfólk Eflingar til að setja meiri kraft og skipulagningu í afgreiðslu allra erinda.“Hér má sjá nýtt skipurit Eflingar.Breytingarnar voru kynntar fyrir starfsmönnum í dag og mun skrifstofan starfa eftir nýju skipuriti frá og með mánudeginum 2. september.