Ekkert bólar á skattalækkunum fyrir láglaunafólk, sem ríkisstjórn lofaði í vor. Forsenda kjarasamninganna sem voru undirritaðir í apríl eru stuðningsaðgerðir stjórnvalda, þar á meðal nýtt lágtekjuskattþrep til að létta skattbyrði á lægstu laun. Engar skattatillögur hafa komið fram hingað til nema ein: skattalækkun á fjármagnstekjur. Á meðan láglaunafólk bíður eftir að loforð séu efnd hleypur ríkisstjórnin til svo auðvelda megi eignafólki lífið.„Við báðum ekki um skattalækkanir á eignatekjur auðmanna,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Þetta er ekki bara vanefnd, þetta gengur þvert gegn hugmyndinni sem hinn svokallaði lífskjarasamningur gekk út á; nefnilega að lækka byrðar á þá sem verst koma undan hagkerfinu, og láta þá sem verða ríkir fyrir það eitt að eiga miklar eignir greiða fyrir örlítið stærra brot af rekstri samfélagsins.“Miðstjórn ASÍ gaf uppi í dag að þolinmæði þar á bæ væri á þrotum. Miðstjórnin krefst þess að tillögur þær sem lofað var meðfram samningunum í vor fái að sjá dagsljós nú þegar.Tilkynningu Alþýðusambandsins má lesa hér í heild:
Frá vormánuðum hefur verkalýðshreyfingin ítrekað kallað eftir tillögum ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir fyrir lágtekjufólk. Miðstjórn ASÍ hefur nú þrotið þolinmæðin og krefst þess að ríkisstjórnin sýni á spilin. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga sem undirritaðir voru 4. apríl segir: 1. Komið verði á fót þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi. Miðað er við að sú aðgerð auki ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins um tíu þúsund krónur á mánuði.2. Skattleysismörk haldist föst að raunvirði á innleiðingartímabilinu og að því loknu hækki persónuafsláttur og skattþrep umfram verðbólgu sem nemi framleiðniaukningu. Nú tæpum 5 mánuðum eftir undirritun kjarasamninga eru einu skattatillögur stjórnvalda áform um breytingar á fjármagnstekjuskatti þannig að fjármagnseigendur þurfi ekki að greiða skatt af öllum fjármagnstekjum heldur einungis raunvöxtum. Það virðist því forgangsatriði hjá ríkisstjórninni að hlífa fjármagnseigendum við að greiða sitt til samfélagsins eins og launafólki ber að gera. Á meðan bólar ekkert á áðurnefndum skattalækkunum fyrir lágtekjufólk. Við undirritun samninga var lögð mikil áhersla á þetta atriði og var það forsenda þess að kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins voru undirritaðir og síðar samþykktir af félögum stéttarfélaganna. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um að sjá tillögurnar eru þær ekki enn komnar fram og krefst miðstjórn ASÍ þess að þær líti dagsins nú þegar.