Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í Vikulokunum laugardaginn 24. ágúst síðastliðinn, þegar umræðan barst að háum launum bæjarstjóra og annarra sveitarstjórnenda að það að vera bæjarstjóri væri á vissan hátt lífsstíll. Með þessum orðum vísaði hún til ábyrgðar og þess tíma sem fer í að sinna starfsskyldum. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, hæst launaði bæjarstjóri landsins bauð upp á samskonar málflutning þegar hann sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að hann væri í vinnunni 24 tíma á sólarhring og bæri mikla ábyrgð.Nú erum við búin að heyra þessa plötu svo oft, um ábyrgðina og vinnusemina, að við verðum ekki lengur hissa á sjálfsupphafningunni og sjálfsréttlætingunni en það er engu að síður áhugavert að velta fyrir sér viðbrögðum stjóranna við umræðu um kaup og kjör, sérstaklega vegna þess að þau virðast virka; þið getið verið viss um að næstu fréttir sem berast af launamálum yfirstéttar sveitarstjórnanna verða af launahækkunum og til að réttlæta þær er öruggt að vísað verður í ábyrgð og það að aumingja fólkið sé alltaf í vinnunni.Í ljósi hugtaka eins og ábyrgðar og vinnusemi er líka áhugavert að velta fyrir sér annars vegar því ábyrgðarleysi sem fólkið innan vébanda Sambands íslenskra sveitarfélaga leyfði sér nú í sumar þegar það tók ákvörðun um að greiða ekki 105.000 kr. innágreiðslu til félagsmanna Eflingar og annarra félaga innan Starfsgreinasambandsins vegna komandi kjarasamninga, ætlaða til þess að létta láglauna fólki biðina eftir þeim launahækkunum sem þegar hefur samist um á almenna markaðnum, og hins vegar ábyrgðina sem láglaunastéttir sveitarfélaganna sannarlega axla á hverjum einasta degi í störfum sínum. Ábyrgð sem á endanum er svo lítils metin að fólkið með völdin gefur ekkert fyrir hana, þrátt fyrir að þau viti auðvitað að án allra þessara vinnandi handa væru engin sveitarfélög til að stjórna, engin ofurlaun til að skammta sjálfum sér. Ábyrgð sem allir íbúar sveitarfélaganna treysta á að sé tekin af þeim sem vinna vinnuna en er engu að síður aldrei nokkurn tímann metin að verðleikum.Á Íslandi búa nú 356.991 manneskja, fámennur hópur á ríku landi. En þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir, fámennið og auðinn, er önnur staðreynd sú að nákvæmlega enginn vilji er til staðar hjá yfirstétt hins opinbera til að deila gæðunum af réttlæti og með jöfnuð í huga. Þó að yfirstétt hins opinbera hafi öll tækifæri til að hefja það verðuga og nauðsynlega verkefni að bæta kjör og vinnuaðstæður láglaunafólks virðist enginn áhugi vera á því innan þeirra raða. Áhugaleysið er þyngra en tárum taki en því miður jafn fyrirsjáanlegt og árlegt sjálfshólið um ábyrgðina og vinnusemina.Það er viss lífsstíll að meta aðeins eigin störf merkileg og mikilvæg. Það er viss lífsstíll að láta hneykslun almennings á fáránlegum launamun sem vind um eyru þjóta, viss lífsstíll að bíða af sér gagnrýnina ár hvert og halda svo áfram eins og ekkert hafi í skorist. Það er viss lífsstíll að gera ekkert til að vinna gegn misskiptingu, viss lífsstíll að auka hana markvisst.Ef að það er satt, að bæjarstjórar sinni vinnunni sinni 24 klukkutíma á sólarhring, er þá ekki hægt að ætlast til þess að þeir taki einhverja af þessu klukkutímum og noti til þess að setja sig í spor láglaunafólksins sem af samviskusemi sinnir störfum sínum, oft undir gríðarlegu álagi og við erfiðar aðstæður? Er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sýni aðstæðum þeirra sem halda sveitarfélögunum gangandi með vinnu sinni, einhvern skilning? Er það á endanum ekki sjálfsögð og eðlileg krafa að þeir, með alla sína ábyrgð, fari loksins líka að vinna fyrir fólkið sem vinnur vinnuna? Eða er það kannski lífsstíll sem hentar ekki ofurlaunuðum bæjarstjórum Íslands?Sólveig Anna Jónsdóttirformaður Eflingar-stéttarfélags