– segir Stefán E. Sigurðsson, nýr í stjórn Eflingar
Stefán E. Sigurðsson hefur mikla reynslu af íslenskum vinnumarkaði, bæði sem sjálfstæður atvinnurekandi og almennur launamaður. Í dag vinnur Stefán hjá Olís í Mosfellsbæ, þar sem hann er mjög ánægður í starfi og er nýr stjórnarmaður í Eflingu.Stefán hefur látið sig verkalýðsmál varða lengi. Hann hefur verið trúnaðarmaður á fleiri en einum vinnustað í gegnum tíðina og látið til sín taka á þeim vettvangi. Hjá sínum fyrrverandi atvinnurekanda blöskraði Stefáni framkoma yfirmanna við starfsmenn sína, sérstaklega þá sem voru af erlendu bergi brotnir. Sem trúnaðarmaður þar átti Stefán í stöðugu stappi við yfirmenn sem brutu kjarasamninga síendurtekið og brugðu til ýmissa ráða til að stela launum af starfsfólki sínu. Trúnaðarmannsstarfið kallaði á mikil samskipti Stefáns við Eflingu. Það er reynsla sem hann býr að í stjórnarsetu í dag, enda hefur hann skýra og gagnrýna sýn á verkalýðsbaráttuna og það hvað Efling eigi að vera fyrir félagsmenn sína.Stefán sat í trúnaðarráði Eflingar í tíma fyrri stjórnar. Sú seta varði ekki lengi og endaði með því að hann gekk út af fundi og þakkaði fyrir sig. Hann gagnrýnir þáverandi stjórn Eflingar fyrir kjarkleysi þegar kom að kjarasamningsgerð:„Ég upplifði þetta þannig að við værum búin að gefast upp áður en við fórum af stað.“ Stefán segir það hafa verið sláandi hvernig þáverandi stjórn hafi tekið upp rök atvinnurekenda og talað fyrir því að „rugga ekki bátnum“ og að of háar kröfur „kollvarpa samfélaginu.“ Þetta viðhorf hugnaðist Stefáni ekki og honum fannst hann ekki getað tekið þátt í verkalýðsstarfi á þessum forsendum. Þegar Stefáni var aftur boðið að taka sæti í trúnaðarráði á síðasta ári hugsaði hann sig vel og lengi um en ákvað að lokum að taka slaginn. Hann hafði trú á nýjum formanni Sólveigu Önnu, að hún nálgaðist kjarabaráttuna út frá öðrum forsendum. Stuttu seinna var Stefán beðinn um að gefa kost á sér stjórn.Stefán segir málefni lífeyrissjóðanna vera það sem brenni helst á honum. Hann hafi aldrei þolað fyrirkomulagið sem er við lýði og hefur slæma reynslu af því persónulega. Hann bendir á að atvinnurekendur eigi í öllum lífeyrissjóðunum og gagnrýnir harðlega sjónarmið stjórnenda þeirra sem segja að það sem mestu máli skipti sé að hámarka gróðann. Auðvitað sé gott að fá góða ávöxtun, en það eigi að vera forgangsatriði að sjóðirnir séu notaðir fyrir fólkið okkar og í okkar þágu. Ekki í þágu fjármagnseigenda eins og nú er: „Við þurfum ekkert að búa til túkall úr krónu til að láta einhverja gúffa úti í bæ díla með það!“ segir Stefán ákveðinn. „Við eigum bara að nota þessa peninga í okkar þágu og fjármagna eins hátt og mögulegt er með það sjónarmið í forgrunni.“ Stefáni er einnig mikið í mun að tryggja rétt þeirra félagsmanna sem eru hættir að vinna. Hann talar fyrir því að fólk sem hefur borgað félagsgjöld til Eflingar í einhvern ákveðinn árafjölda haldi vissum réttindum áfram eftir að þeir hætti að vinna. Það mætti auk þess auka nánd við félagsmenn með því að hafa umhverfið vinalegra og gera skrifstofuna minna stofnanalega. „Þetta á ekki að vera eins og félagsmaðurinn sé að koma í viðtal við bankastjóra bak við risastórt skrifborð eins og var hér áður fyrr. Við eigum að hugsa vel um fólkið okkar,“ segir Stefán að lokum.