Alþjóðlega ráðstefnan #MeToo: Moving Forward fór fram í Hörpu dagana 17.-19. september. Á ráðstefnunni var meðal annars fjallað um kynbundið ofbeldi og áreitni í samhengi við stéttaskiptingu og vinnumarkaðsmál. Fjöldi erlendra gesta sótti ráðstefnuna, m.a. hin þekkta baráttukona fyrir samfélagslegu réttlæti, Angela Davis frá Bandaríkjunum.Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, hélt ræðu þann 18. september undir yfirskriftinni „Hlaupandi konur Íslands“ þar sem hún lagði áherslu á hlutskipti láglaunakvenna innan hinna samtengdu valdakerfa kapítalisma og feðraveldis. Ekki væri nóg að skipta út körlum fyrir konur í valdastólum á meðan valdníðsla gegn hinum verr settu héldi áfram óbreytt. Sjá má ræðu hennar í myndbandsupptöku hér (hefst á 23. mínútu). Með henni í panel voru baráttukonur frá ýmsum löndum sem ræddu um reynslu sína og sýn á jafnréttisbaráttuna.Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, stýrði umræðum í panel um tengslin milli íhlaupavinnu (precarious work) og þess hversu útsettar konur eru fyrir áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði. Drífa Snædal forseti ASÍ hélt erindi í þeim panel, ásamt tveimur baráttukonum úr verkalýðshreyfingunni í Bandaríkjunum, þeim June Barret og Monicu Ramirez. Fyrirlesararnir voru sammála um að ofbeldi og áreitni gegn konum í vinnunni, hvort heldur sem er í þjónustustörfum, umönnunarstörfum eða í landbúnaði, er lykilþáttur í að viðhalda ójafnri stöðu kynjanna og að verkalýðshreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í þeirri baráttu.Efling þakkar skipuleggjendum ráðstefnunnar fyrir að hafa boðið fulltrúum félagsins að taka þátt og fyrir að setja málefni #MeToo bylgjunnar í samhengi við stöðu láglaunakvenna.