Íslenska skattkerfið – samantekt á fyrirlestrum

Í september skipulagði Efling í samstarfi við Ríkisskattstjóra stutt námskeið á ensku og pólsku þar sem farið var yfir íslensk lög og reglur um skattheimtu einstaklinga. Efling leggur áherslu á að erlendir félagsmenn hafi aðgang að réttum upplýsingum um skattkerfið og var námskeiðið liður í því að veita þeim þessar upplýsingar.Helgi Guðnason sérfræðingur í skattheimtu einstaklinga hjá RSK kenndi námskeiðin. Helgi fór skilmerkilega yfir hvaða skattar það eru sem einstaklingum er gert að greiða; tekjuskattur, virðisaukaskattur, bifreiðagjald auk fleiri smáskatta.Allir einstaklingar sem hafa tekjur hvort sem er frá atvinnurekanda (laun), atvinnuleysisbætur, greiðslur frá Tryggingastofnun eða úr lífeyrissjóðum eru skyldugir til að greiða tekjuskatt. Flestar tekjur eru skattlagðar þegar greiðsla fer fram (staðgreiðsla skatta) og er launaseðill kvittun fyrir þeirri greiðslu. Það er mikilvægt að fá afhentan launaseðil um hver mánaðamót þar sem fram kemur að staðgreiðsla skatta hafi farið fram. En launaseðill gildir sem kvittun fyrir greiddri staðgreiðslu standi launagreiðandi ekki skilum.Tekjuskattur er 36,94% eða 46,24% en það veltur á tekjum einstaklinga.Allir einstaklingar 16 ára og eldri eiga rétt á að nýta sér persónuafslátt mánaðarlega, að upphæð 56.447 kr. árið 2019. Persónuafslátturinn endurnýjast árlega um áramót. Ónýttur persónuafsláttur færist á milli mánaða en ekki á milli ára.Einstaklingar eru skyldugir til að skila skattframtali, skilafrestur er yfirleitt í mars. Ef einstaklingur hyggst fara frá Íslandi, þá skal hann skila inn skattframtali á pappír fyrir brottför á skrifstofu Tollstjóra.Ef einstaklingur vinnur sem verktaki, er hann skyldugur til að greiða skatta og önnur gjöld sjálfur. Þeir sem vinna sem verktakar verða því að kunna grundvallaratriði í rekstri og bókhaldi.Svört vinna er ólögleg og getur haft lagalegar afleiðingar fyrir viðkomandi sem tekur að sér slíka vinnu. Með því að taka við svartri vinnu fyrirgerir einstaklingur sér rétt á sjúkratryggingum, atvinnuleysisbótum, bótum almannatrygginga, fæðingarorlofi og vinnuslysatryggingu.Ítarlegri upplýsingar og lagaleg atriði er hægt að nálgast hjá RSK.Kynninguna má nálgast hér.