Í Höfða, móttökuhúsi borgarstjórans í Reykjavík, stendur mikið til.Hvítur dúkur hefur verið lagður á langborðið í vesturálmunni.Öllu því besta hefur verið tjaldað til því Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs og Stefán Eiríksson borgarritari eiga von á mikilvægum gestum.Hvaða gestir eru svo mikilvægir að tveir af æðstu stjórnendum borgarinnar óski sérstaklega eftir að funda með þeim?Jú, stjórnendur Reykjavíkurborgar gáfu sér tíma til að halda fund með Félagi kvenna í atvinnulífinu í Höfða, eftir að hafa síðan í sumar fundað með helstu samtökum fjármagnseigenda og atvinnurekenda. Markmið fundanna er „að borgin og atvinnulífið í Reykjavík skilji betur gagnkvæmar þarfir og væntingar“ samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Reykjavíkurborgar undir fyrirsögninni „Fundað með fulltrúum atvinnulífsins“.Enn og aftur opinberast forgangsröðun hinnar pólitísku valdastéttar. Stjórnendur Reykjavíkurborgar beina athygli sinni að hinni efnahagslegu valdastétt og taka með viðhöfn á móti meðlimum hennar. Undirritaðar kannast hins vegar ekki við að sambærilegt boð hafi borist þeim þrátt fyrir að Efling hafi staðið í samningaviðræðum við borgina síðan í vor og nú vísað þeim til ríkissáttasemjara.Einn fjölmennasti vinnustaður og „atvinnurekandi“ landsins er Reykjavíkurborg, sem rekur m.a. mikinn fjölda þeirra leikskóla sem oft eru nefndir sem grundvöllur mikillar atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi. Í leikskólum borgarinnar starfa ríflega 1000 meðlimir Eflingar, fyrst og fremst konur, láglaunakonur, en samkvæmt niðurstöðum launarannsóknar Hagstofu Íslands eru laun ófaglærðs starfsfólks leikskólanna þau lægstu á Íslandi. Staðreyndin er sú að Reykjavíkurborg býður þeim sem starfa við undirstöðuatvinnugreinina sem umönnun barna er smánarleg laun, laun sem eru grimmilegur vitnisburður um kerfisbundna fyrirlitningu á hefðbundnum kvennastörfum.Reykjavíkurborg er með þessu gerandi í óréttlæti gagnvart láglaunakonum á Íslandi. Þrátt fyrir kynjaða fjárhags- og starfsáætlun og þrátt fyrir að pólitískir stjórnendur borgarinnar séu yfirlýstir femínistar hefur það engu breytt fyrir þær láglaunakonur sem starfa hjá borginni. Þeirra hlutverk er aðeins að gera það sem konur hafa gert frá örófi alda án eðlilegrar viðurkenningar; ekkert bendir til þess að Reykjavíkurborg vilji borga meira en smáuara fyrir aðgang að kvenvinnuaflinu.Við ætlum ekki að láta sem við séum undrandi á forgangsröðun Þórdísar Lóu og félaga hennar í borgarstjórn. Við vitum nákvæmlega hver áhugi þeirra sem stjórna er á tilveru og lífsskilyrðum láglaunakvenna á Íslandi. Við vitum að þau sem stjórna kippa sér t.d lítið upp við það að sífellt fleiri láglaunakonur endi starfsævi sína sem öryrkjar, líkt og kemur fram í nýrri skýrslu Kolbeins H. Stefánssonar fyrir ÖBÍ.En það að okkur bregði ekki í brún við forgangsröðunina þýðir ekki að við ætlum að láta sem við tökum ekki eftir henni. Þvert á móti, við fylgjumst grannt með og okkur er sannarlega misboðið. Okkur er ekki boðið í Höfða til skrafs og ráðagerða en við höfum engu að síður bankað á dyr Reykjavíkurborgar með sanngjarnar kröfur um mannsæmandi laun og viðunandi vinnuaðstæður. Við munum ekki sætta okkur við það að enginn komi til dyra. Við krefjumst þess að valdastétt Reykjavíkurborgar opni fyrir okkur dyrnar og viðurkenni að án vinnu meðlima Eflingar væru allir, ekki síst eigendur atvinnutækjanna, í stórkostlegum vandræðum.Við krefjumst þess að æðstu embættismenn borgarinnar líti sér nær og beini samstundis athygli sinni að því að tryggja lægst launuðu starfsmönnum sínum mannsæmandi líf. Eða ætla meðlimir yfirstéttar borgarinnar, með hátt í tvær milljónir á mánuði, að vera áfram þekkt fyrir að láta sem konurnar sem raunverulega halda hér öllu gangandi séu einskis virði á meðan fulltrúar atvinnurekenda eru leiddir til hásætis í Höfða?Höfundar:Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður EflingarAgnieszka Ewa Ziólkowska er varaformaður Eflingar