Efling stéttarfélag hvetur fólk til að fjölmenna á mótmælafund á Austurvelli n.k. laugardag, 23. nóvember kl. 14.00. Efling, Stjórnarskrárfélagið, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu og hópur almennra borgara og félagasamtaka hefur tekið sig saman og flautað til þessa mótmælafundar. Meðal ræðumanna verður Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Almenningur í Namibíu er rændur af íslenskri stórútgerð. Almenningur á Íslandi er rændur arðinum af auðlindum sínum. Tugir milljarða eru færðir árlega í vasa stórútgerða sem ættu að renna í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins.Óréttlætið þrífst í skjóli úreltrar stjórnarskrár og pólitískrar spillingar. Stjórnmálaflokkar standa auðsveipir gagnvart sérhagsmunum örfárra sem náð hafa heljartaki á þjóðlífinu í skjóli lögverndaðs arðráns og ofsagróða. – Fjárhagsleg samskipti stórútgerða og stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka þarf að rannsaka og skera upp herör gegn skattaskjólum og peningaþvætti.Alþingi bað landsmenn um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Alþingi fékk umbeðnar tillögur og boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um þær. Yfir 2/3 hlutar kjósenda (67%) samþykktu að tillögurnar skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Síðan eru liðin sjö ár! Grafið er undan lýðræði í landinu með þjónkun við sérhagsmuni og ógnandi vanvirðingu gagnvart lýðræðislegum vilja kjósenda og endurteknum tilræðum við nýju stjórnarskrána.Fundarstjóri:Katrín OddsdóttirRæðumenn:Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður EflingarAtli Þór Fanndal, blaðamaðurÞórður Már Jónsson, lögmaðurTónlist: HATARI Kröfur:
- Sjávarútvegsráðherra segi tafarlaust af sér embætti.
- Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012—Að sjálfsögðu með því auðlindaákvæði sem kjósendur samþykktu.
- Arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra.
Katrín Oddsdóttir, einn skipuleggjandi mótmælanna hefur þetta að segja um ástæðu mótmælafundarins:„Á Íslandi viðgengst viðvarandi arðrán á auðlindum þjóðarinnar. Hagnaðurinn af sjávarauðlindinni gerir lítinn hóp ríkari með hverju árinu í staðinn fyrir að renna í okkar sameiginlegu sjóði. Þannig er farið gegn lögum sem segja að þjóðin eigi auðlindirnar. Samherjamálið sviptir hulunni af þessari staðreynd. Nú verðum við að bregðast við áður en leiktjöldin falla aftur og ná fram alvöru kerfisbreytingum. Samfélagið þarf á auðlindaarðinum að halda. Þorsteinn Már þarf ekki á meiri peningum að halda“.Skipuleggjendur hvetja almenning til að mæta og sýna samstöðu í verki. Katrín, sem er meðal þeirra sem barist hafa ötullega fyrir nýju stjórnarskránni, leggur áherslu á að nú séu sjö ár frá því að þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram þar sem 2/3 hlutar kjósenda sögðu að leggja ætti nýju stjórnarskrána til grundvallar sem stjórnarskrá Íslands.„Alþingi hefur markvisst hunsað þessa niðurstöðu sem er ekki bara óboðlegt heldur hreinlega ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi. Í nýju stjórnarskránni er auðlindaákvæði sem tryggir að þjóðin fái „fullt verð“ fyrir nýtingu á auðlindum sínum, eða með öðrum orðum markaðsverð. Þetta þýðir að vinavæðingin sem hefur einkennt sjávarútveginn á Íslandi undanfarna áratugi mun að öllum líkindum taka enda. Ef við horfumst í augu við spillinguna og það arðrán sem á sér stað á Íslandi á hverjum degi munum við finna kraftinn og samtakamáttinn sem þarf til þess að breyta þessu!“ segir Katrín Oddsdóttir.Fjölbreyttur hópur samtaka og stéttarfélaga setur nafn sitt við mótmælin. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir skipta öllu máli að almenningur standi saman: „Verkalýðsfélög eiga að standa með almenningi gegn ofurvaldi eignastéttarinnar. Verka og láglaunafólk hefur barist fyrir efnhagslegu réttlæti kynslóðum saman, oft með stórkostlegum árangri. Nú skiptir öllu máli að við stöndum saman og knýjum á um raunverulegar breytingar í íslensku samfélagi.“Vinsælasta hljómsveit landsins, Hatari, mun troða upp á laugardaginn en liðsmenn sveitarinnar segja Samherja birtingarmynd síðkapítalismans: „Græðgi Samherja er tær birtingarmynd þeirra gilda sem síðkapítalisminn elur í brjósti ungra og efnilegra mógula og svikahrappa.“