Íslenskt samfélag býður oft upp á skrítna tilveru. Enginn vafi leikur á því að í alþjóðlegum samanburði kemur eyjan okkar vel út; við erum auðugt samfélag í landi ríkulegra náttúruauðlinda. En ekki er allt sem sýnist. Hvað eftir annað koma upp stórkostlega alvarleg mál sem varða dómgreind og hegðun valdamesta fólks samfélagsins, sem ýmist tilheyrir stétt kapítalista eða stjórnmálafólks eða jafnvel báðum hópum. Þetta er auðvitað algjörlega óþolandi og einstaklega sorglegt að hugsa til þess að Hrunið og afleiðingar þess hafi ekki orðið til þess að alþýða landsins geti fengið að lifa frjáls undan firrtri hegðun auðmanna og valdastéttarinnar. Þegar þessi orð eru rituð get ég aðeins vonað að þeir atburðir sem nú skekja þjóðfélagið verði til þess að raunverulegar breytingar eigi sér stað, t.d. á því hvernig auðæfum landsins er deilt á milli þeirra sem landið byggja.En firrt hegðun er okkur ekki aðeins sýnileg þegar kemur að endalausri ásælni þeirra sem dvelja efst í stigveldi samfélagsins í fé og völd heldur líka þegar kemur að lífskilyrðum vinnuaflsins. Hvað eftir annað verðum við vitni að því að verka- og láglaunafólki er gert að sætta sig við fáránlegar aðstæður, bæði persónulega og á vinnustöðum, þar sem fólk þarf að þola algjörlega óþolandi yfirgang atvinnurekenda.Og við verðum einnig vitni að firringu og skeytingarleysi í málflutningi valdamikils fólks. Skemmst er að minnast málflutnings Gissurar Péturssonar, ráðuneytisstjóra félags- og barnamálaráðuneytisins, í umræðu um fólksflutninga og aðbúnað fólks af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði fyrir skemmstu.Það er auðvelt að losa sig við þau og það er kostur! Við höfum boðið þeim íslenskunámskeið en þetta fólk nennir ekki að læra tungumálið! Af hverju ættum við að hlúa að þeim – við vitum ekki betur en að það sé á leið úr landi!Með þessum orðum er hægt að lýsa viðhorfi ráðuneytisstjórans til okkar aðfluttu félaga, fólksins sem hingað kemur til að lifa og starfa, sem að hingað hefur komið á síðustu árum, til að knýja áfram uppsveifluna og hefur þurft að sætta sig við alls konar ömurlegar aðstæður; „lausbeislað vinnusamband“ eins og það er kallað, húsnæðisskort og húsnæðismarkað sem hefur verið afhentur fjármagnseigendum og svo auðvitað sjálfan launaþjófnaðinn, það að hundruðum milljóna er bókstaflega stolið á ári hverju frá verka- og láglaunafólki án þess að nokkur refsing bíði þess sem glæpinn fremur. Fólksins sem að nú þarf að takast á við atvinnuleysið sem er afleiðing oflætis kapítalistanna, sem að sjálfir axla auðvitað enga ábyrgð á meðan að vinnuaflið hefur ekkert val; upp á það er einfaldlega þröngvað „lögmálum“ arðránskerfisins.Í stjórn Eflingar situr ung kona af erlendum uppruna sem „lenti“ í því þegar hún kom til Íslands að vinna frá morgni til kvölds, eiga ekkert raunverulegt frí, og fá næstum ekkert útborgað. Hún komst að því að fólkið sem fór svona með hana hafði stundað þetta árum saman; að lokka til sín ungt fólk frá öðrum löndum, til að fara með eins og því lysti. Það er inn í þennan veruleika sem Gissur talar og það er vegna þessa veruleika sem að orð hans valda ekki aðeins stórkostlegri undrun hjá þeim sem á þau hlýða, heldur einnig reiði. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem við í Eflingu verðum vitni að þeirri fyrirlitningu sem að hann ber til aðflutts verkafólks. Á fundi sem haldinn var 11. febrúar á þessu ári í framkvæmdarteymi um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals, undir umsjá félagsmálaráðuneytisins, skeytti Gissur engu um dvalarleyfi þolenda og sýndi enga viðleitni til að tryggja að þeir fengju hjálp heldur teldi best að þeir hyrfu sem fyrst úr landi, sem hefði auðvitað komið í veg fyrir að hægt væri að rannsaka málið.Það er ömurlegt að hugsa til þess að maður með svona viðhorf sé í jafn mikilvægu embætti og raun ber vitni. Verka- og láglaunafólk á rétt og heimtingu á því að komið sé fram við það af skilyrðislausri virðingu.Sem ráðuneytisstjóri félagsmála og áður forstjóri Vinnumálastofnunar, ber Gissur mikla ábyrgð.En sá sem ber þó ábyrgð á Gissuri er Ásmundur Einar Daðason, yfirmaður hans. Ég hvet Ásmund til þess að axla þessa ábyrgð og sjá til þess að sú manneskja sem hann velur til að fara með framkvæmd velferðarmála í landinu sé sannarlega talsmaður velferðar og mannúðar í orði og á borði. Annað er óásættanlegt!Sólveig Anna Jónsdóttirformaður Eflingar-stéttarfélags