Efling – stéttarfélag hefur sent forstjóra Ölgerðarinnar áskorun um að stytta vinnuviku þeirra sem starfa hjá fyrirtækinu undir kjarasamningi Eflingar. Efling bendir á að ekkert banni fyrirtækinu að framkvæma slíka styttingu fyrir starfsmenn fyrirtækisins jafnvel þótt þeir starfi ekki undir kjarasamningi VR.Efling bendir á að í núgildandi kjarasamningi félagsins við SA eru sérstakar heimildir til að framkvæma vinnutímastyttingu. Þær heimildir voru settar inn í kjarasamning með stuðningi SA og eru hugsaðar til að auðvelda framkvæmd vinnutímastyttingar og hvetja til hennar. Að mati Eflingar blasir við að nýta þessar heimildir til að leysa þá stöðu sem upp er komin hjá Ölgerðinni.Í áskoruninni er bent á að Ölgerðin hafi um árabil leyft hópi starfsmanna sem vinna Eflingarstörf að vera skráðir í VR og sýnt tómlæti gagnvart því að leiðrétta stéttarfélagsaðild þeirra. Efling gagnrýnir tækifærissinnaða tímasetningu á flutningi félagsaðildar, sem kemur í veg fyrir kjarabætur sem starfsmenn hefðu ella fengið.„Við bendum Ölgerðinni á einfalda lausn á vandamálinu sem er að gera vinnustaðasamning fyrir Eflingarfólk um sömu styttingu vinnuvikunnar og VR félagar eru að fá. Það er gert sérstaklega ráð fyrir samstarfi á einstökum vinnustöðum um slíkar styttingar í kjarasamningi Eflingar við SA. Þetta einfaldlega blasir við, og Efling er til í viðræður og samstarf um þessa lausn. Við skorum á Ölgerðina að þiggja boð okkar um samstarf við að leysa þetta mál,“ segir Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.Lesa áskorun