Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg lagði fram tilboð fyrir samninganefnd borgarinnar á fimmtudaginn 16. janúar. Kastljós fjölmiðla hefur beinst fyrst og fremst að upphæð desemberuppbótarinnar, en hún er hvorki meginatriði tilboðsins né megináhersluatriði samninganefndar. Lykilatriði tilboðsins er leiðrétting á kjörum lægst launuðu starfsmanna borgarinnar.Fjórar árlegar hækkanirFyrst ber að nefna að í tilboðinu er fallist á að taxtahækkanir verði í takt við svonefndan lífskjarasamning, það er að segja fjórar árlegar hækkanir á launatöxtum sem nemi samtals 90 þúsund á samningstíma.Sú hækkun ein og sér svarar hins vegar ekki vanda láglaunafólks hjá Reykjavíkurborg. Það, ólíkt starfsfólki á almennum vinnumarkaði, hefur ekki möguleika á að hækka laun sín með launaviðtölum og bónusum líkt og gerist í einkageiranum þegar eftirspurn eftir vinnuafli er mikil. Yfirvinna og álagsgreiðslur standa starfsfólki leikskóla ekki til boða, þ.e. meirihluta Eflingarfélaga að störfum hjá borginni. Að taka á sig yfirvinnu og fá álagsgreiðslur er oft eina leið láglaunafólks til að ná endum saman en sú leið er lokuð mörgum félagsmönnum Eflingar hjá borginni.Leiðrétting á launumReykjavíkurborg skar niður í þjónustu eftir hrun, sem þyngdi róðurinn fyrir starfsfólk borgarinnar. Góðæri bætti ekki úr skák, enda buðust þá fleiri störf á almenna markaðnum sem starfsfólk leikskóla borgarinnar flykktist í. Þetta jók enn á ný álag á lægst launaða starfsfólkið, þá ófaglærðu, sem bera sífellt ríkari ábyrgð á að halda leikskólunum gangandi.Meirihluti starfsfólks leikskóla er konur, og umönnun barna er starf sem konur hafa unnið áratugum og öldum saman án endurgjalds. Arfleifð þessa er enn merkjanleg, enda gera jafnvel núverandi borgaryfirvöld ráð fyrir því að konur sinni þeim á launum sem duga ekki til að lifa á Íslandi, þótt þessi sömu yfirvöld kenni sig á öðrum stöðum og stundum við jafnrétti og frelsisbaráttu kvenna.Þessi staðreynd veldur því að stór kvennastétt hér í Reykjavík lifir á barmi fátæktar, og starfar undir slíku álagi að örorka er raunveruleg hætta þegar kemur á miðjan aldur.Til að koma til móts við þessar staðreyndir hefur samninganefnd Eflingar lagt fram tillögu að úrbótum, byggða á fyrirmynd frá 2005, þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáverandi borgarstjóri, tók af skarið og beitti sér fyrir leiðréttingu á launum kvennastétta. Þetta þótti henni eðlilegt skref til að nálgast umræðu um jafnrétti kynjanna, og samninganefnd Eflingar er sama sinnis.Útfærslan felst í að reiknireglu fyrir laun tiltekinna starfsflokka, sem þegar liggur fyrir, verði hnikað lítillega. Lægstu launaflokkarnir fái þá leiðréttingu, meiri eftir því sem þeir eru lægri.Á mannamáli þýðir þetta að leiðréttingin nemur 52.507 kr. mest á lægstu launin, en 21.918 kr. minnst miðað við virka launaflokka. Þessi hækkun bætist við hækkanir Lífskjarasamningsins fyrir lægst launaða starfsfólk borgarinnar. Hún styrkir þá hugsjón Lífskjarasamningsins að fólk á lægstu launum eigi að njóta mestra kjarabóta, og gengur að því leyti lengra í átt til réttlætis að hún veitir lægst launaðasta hópi starfsfólks hærri bót heldur en þeim sem fá hærri laun.Réttlætisrökin og einnig praktísk rök sem varða rekstrarhæfi leikskóla sem nú eru í augljósri kreppu, styðja við þessa útfærslu. Undirmannaðir leikskólar, þar sem starfsfólk þarf oft að bæta á sig annarri vinnu með tilheyrandi álagi og hættu á kulnun í starfi, eru enda samfélagsleg vandamál sem borginni er skylt að leysa.Einnig ætti fjármögnun ekki að vera til trafala, enda sparar borgin sér nú þegar mörg hundruð milljónir króna á hverju ári með því að hafa tvöfalt fleiri ófaglærða starfsmenn að störfum í leikskólum en lög gera ráð fyrir.Sjá kynningu á tilboði Eflingar